Innleiðing gæðaviðmiða frístundaheimila

Viðhorf stjórnenda og starfsfólks

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.21

Lykilorð:

frístundaheimili, gæði, menntastefna, fagmennska, skóla- og frístundastarf

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar á innleiðingu á gæðaviðmiðum í starfi frístundaheimila fyrir sex til níu ára börn. Markmið rannsóknarinnar er að kanna stöðu innleiðingar á viðmiðum um markmið og gæði starfs á frístundaheimilum sem voru gefin út árið 2018 af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Áhersla er lögð á að greina hvert sé meginhlutverk frístundaheimila samkvæmt stefnuskjölum og varpa ljósi á viðhorf stjórnenda og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi til innleiðingar gæðaviðmiða í daglegt starf. Fáar rannsóknir beina sjónum sínum að gæðum frístundastarfs og er rannsókninni meðal annars ætlað að fylla það skarð í fræðilegri umfjöllun. Aflað var hagnýtra gagna sem nýtast munu til að styðja við gæði í starfi frístundaheimila. Við rannsóknina var beitt blandaðri aðferðafræði, bæði megindlegri og eigindlegri. Ýmis skrifleg stefnumótunargögn varpa ljósi á forsendur gæðaviðmiðanna. Þá var megindlegum gögnum safnað með spurningakönnun, ásamt að rýnifundur studdi við réttmæti niðurstaðna. Rafræn spurningakönnun var lögð fyrir frá 30. júní til 10. september 2023 þar sem upplýsinga var aflað um viðhorf stjórnenda og starfsfólks frístundaheimila.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að frístundaheimilum er ætlað að hlúa að félagsfærni og sjálfstrausti barna og veita þeim tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttu tómstundastarfi. Gæðaviðmiðin snúa bæði að kerfislægum þáttum sem rekstraraðilar og stjórnvöld bera ábyrgð á, s.s. húsnæði, búnaði og þjálfun starfsfólks og faglegum þáttum sem snúa að daglegu skipulagi, viðfangsefnum og samskiptum starfsfólks og barna. Niðurstöður sýna að helstu áskoranir við innleiðingu gæðaviðmiða lúta að kerfislægum gæðum en um þriðjungur svarenda taldi að illa eða mjög illa gengi að tryggja þessar grunnstoðir. Um fjórðungur taldi að erfitt væri að tryggja að efniviður og búnaður sem höfðaði til áhugasviðs barna væri til staðar. Rannsóknin gefur til kynna ákveðna jaðarsetningu frístundaheimila sem endurspeglast í stefnuskjölum og viðhorfum þátttakenda. Niðurstöður kalla á markviss viðbrögð og aukinn stuðning við innleiðingu á gæðaviðmiðum í starfi frístundaheimila á landsvísu. Ljóst er að þar þarf víðtækt samráð allra hagaðila.

Um höfund (biographies)

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í heimspeki 1997, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og PhD-gráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Í rannsóknum sínum hefur Kolbrún beint sjónum að ferðalagi ungmenna milli ólíkra námsumhverfa, formlegra og óformlegra, og lærdóm þeirra innan og utan skóla. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars fagþróun frístundaheimila, formleg og óformleg menntun, menntastefna, fagmennska og samstarf í skóla- og frístundastarfi. Á meðal núverandi rannsóknarverkefna hennar eru farsæld og menntun, tilgangur og merking í lífi ungmenna, og innleiðing gæðaviðmiða í starf frístundaheimila.

Steingerður Kristjánsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Steingerður Kristjánsdóttir (steingek@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennir í tómstunda- og félagsmálafræði. Hún lauk grunnskólakennaranámi, B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996, og MA-gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2013. Steingerður starfaði sem verkefnisstjóri barnastarfs, fyrst hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og síðar hjá Skóla- og frístundasviði á árunum 2002–2015. Meginrannsóknarefni hennar eru frístundaheimili, forysta og fagmennska.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar