Tilgangur og tengsl ungmenna við eigið líf, annað fólk, náttúru og hið yfirskilvitlega

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.16

Lykilorð:

tilgangur, merking, náttúra, ungmenni, heilbrigði

Útdráttur

Rannsóknir benda til þess að ungmenni í samtímanum upplifi líf sitt síður merkingarbært en ungmenni gerðu áður, og þau eigi erfiðara með að finna lífi sínu tilgang. Í þessari grein er sjónum beint að því hvaða tilgang og merkingu ungmenni upplifa í tengslum við eigið líf, annað fólk, náttúru og hið yfirskilvitlega. Vísbendingar eru um að það að upplifa sterk siðferðistengsl við sjálfa sig, annað fólk, náttúru og umhverfi sitt hafi jákvæð áhrif á líf einstaklinga og hjálpi þeim að takast á við erfiðleika og áskoranir. Í auknum mæli er litið á sterk andleg tengsl við veruleikann sem mikilvægan þátt í heilbrigðu lífi og til að geta tekist á við áföll og veikindi. Rannsóknin byggist á gögnum úr alþjóðlegu könnuninni Health Behaviour in School-Aged Children (HBSC) og Íslensku æskulýðsrannsókninni sem lögð var fyrir vorið 2022. Þátttakendur voru alls 1288, þar af voru drengir 51,8% og stúlkur 48,2%. Svarendur voru úr 8. bekk (N = 705) og úr 10. bekk (N = 583) grunnskóla. Stuðst er við svokallaðan „spiritual health“- mælikvarða sem þróaður hefur verið af alþjóðlegu rannsóknarteymi. Í rannsókninni var réttmæti kvarðans í íslensku samhengi kannað og leiddi greining í ljósi gott innra samræmi. Niðurstöður sýna að meirihluti ungmenna upplifði merkingarbær tengsl við annað fólk og náttúru og taldi mikilvægt að finna til persónulegs tilgangs. Minnst var tenging ungmenna við hið yfirskilvitlega, þ.e. að tengjast æðri mætti og telja mikilvægt að íhuga eða biðja. Ólíkt fyrri rannsóknum þá kom í ljós að tengsl við aðra var sá þáttur sem skoraði hæst, en tengsl við eigið sjálf fylgdi fast í kjölfarið. Þá sýna niðurstöður að drengir á Íslandi skora lítillega hærra en stúlkur á tengslum við hið yfirskilvitlega, sem er ekki í samræmi við fjölþjóðlegar rannsóknir. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að ástæða er til að huga að því hvernig skapa megi ungmennum samfélag og svigrúm til að upplifa persónulegan tilgang og finna til merkingarbærra tengsla við annað fólk, náttúru og hið yfirskilvitlega.

Um höfund (biography)

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í heimspeki 1997, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og PhD-gráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Í rannsóknum sínum hefur Kolbrún beint sjónum að ferðalagi ungmenna milli ólíks námsumhverfis, formlegs og óformlegs, og lærdómi þeirra innan og utan skóla. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars fagþróun frístundaheimila, formleg og óformleg menntun, menntastefna, fagmennska og samstarf í skóla- og frístundastarfi. Hún hefur birt fjölda fræðigreina og bókarkafla um þau viðfangsefni, ásamt að vera stjórnvöldum og sveitarfélögum til ráðgjafar um menntamál. Á meðal núverandi rannsóknarverkefna hennar eru farsæld og menntun, tilgangur og merking í lífi ungmenna, og innleiðing gæðaviðmiða í starf frístundaheimila.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar