„... ég er fædd í Kína en á heima á Íslandi og ég er ættleidd og ég er stolt af því ...“ - Tvímenningarlegur heimur ættleiddra barna

Höfundar

  • Jórunn Elídóttir

Lykilorð:

Efnisorð ættleidd börn, ættleiðingar, tvímenningarleg félagsmótun, sjálfsmynd, tengsl við upprunann

Útdráttur

Börn sem ættleidd eru til Íslands erlendis frá koma frá mörgum þjóðlöndum og úr ólíkum áttum. Þau eiga aftur á móti sameiginlegt að alast upp án líffræðilegra foreldra og fjarri fyrri heimaslóðum. Talið er mikilvægt fyrir börnin að þau haldi nokkrum tengslum við upprunalandið, að tengslin efli skilning barnanna á ættleiðingarferlinu og stuðli að þroska jákvæðrar sjálfsmyndar. Í greininni er fjallað um tvímenningarlega félagsmótun ættleiddra barna og rýnt í fræðin til að skýra og skilgreina hvað átt er við þegar fjallað er um þessi málefni. Kynnt er rannsókn þar sem rafræn spurningakönnun var send til tíu telpna sem allar voru ættleiddar frá Kína. Þær voru meðal annars spurðar um uppruna sinn og tengsl við upprunalandið. Með rannsókninni var leitast við að skilja hvað telpurnar telja mikilvægt við þau tengsl og uppruna sinn og greina hvað þeim finnst um að vera ættleiddar frá Kína. Í rannsóknum á undanförnum árum hafa komið fram sterkar vísbendingar um að foreldrar ættu að huga að tvímenningarlegri félagsmótun en hver og einn þarf að finna þær leiðir og áherslur sem henta hverri fjölskyldu. Álykta má af rannsókninni að margt sem snertir upprunann sé mörgum ættleiddum börnum ofarlega í huga. Með frekari rannsóknum má átta sig betur á þessu og varpa frekara ljósi á möguleika fólgna í tvímenningarlegri félagsmótun.

Um höfund (biography)

Jórunn Elídóttir

Jórunn Elídóttir (je@unak.is) er dósent við kennaradeild hug og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún er leikskólakennari, lærði sérkennslufræði í Noregi (1983–1988) og lauk doktorsprófi í sérkennslufræðum frá Worcester University 2002. Hún var á árum áður leikskólasérkennari, sérkennari og sérkennsluráðgjafi í grunnskólum. Helstu rannsóknarsvið hennar eru málefni er varða ættleidd börn, sérkennslufræði, skóla án aðgreiningar og leikskólafræði.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar