„Það var spes að koma aftur í skólann, erfitt…“: Reynsla einstaklinga af grunnskólagöngu eftir foreldramissi

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.17

Lykilorð:

foreldramissir, sorgarferlið, unglingar, grunnskóli, stuðningur, áfallaáætlun

Útdráttur

Þegar barn eða unglingur missir foreldri sitt breytist öll tilvera þess og margs konar áskoranir koma upp sem barnið eða unglingurinn þarf að takast á við. Hlutverk skóla er mikilvægt í þessu samhengi og þarf skólinn og starfsfólk hans að geta brugðist rétt við þegar nemendur verða fyrir því áfalli að missa foreldri. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu einstaklinga af grunnskólanum eftir missi foreldris. Rýnt var í áhrif foreldramissisins á unglinga og skólagöngu þeirra þar sem leitað var svara við hvort og þá hvernig stuðningur mætti einstaklingunum er þeir sneru aftur í skólann eftir missinn. Einnig var rýnt í hvað mætti gera betur í skólum þegar unglingar verða fyrir missi. Tekin voru sex viðtöl við einstaklinga 18 ára og eldri sem höfðu misst foreldri á unglingsárunum, nánar tiltekið á aldrinum 12–16 ára, og var búseta þeirra á þeim tíma dreifð um landið.

Niðurstöður sýna að reynsla einstaklinganna úr skólanum var erfið; mikil reiði kom í kjölfar missisins og námsáhugi flestra viðmælenda minnkaði umtalsvert. Misvel var tekið á móti viðmælendunum við komuna í skólann eftir andlát foreldrisins og skilningur starfsfólks skólanna á ferlinu sem þeir gengu í gegnum var takmarkaður. Einmanaleiki og skortur á stuðningi innan skólans, ásamt minni námskröfum, varð til þess að þeir áttu erfitt uppdráttar námslega og sum hver einnig félagslega. Út frá niðurstöðum má álykta að stuðningur við nemendur sem orðið hafa fyrir missi foreldris þyrfti að vera markvissari, skipulagðari og ekki síst persónulegri, auk þess sem skilningur á sorgarviðbrögðum og sorgarferlinu mætti vera meiri.

Um höfund (biographies)

Heiður Ósk Þorgeirsdóttir

Heiður Ósk Þorgeirsdóttir (heijo09@gmail.com) starfar sem leikskólakennari við leikskólann Tröllaborgir. Hún lauk B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands árið 2016. Hún lauk viðbótardiplómu í menntavísindum með sérhæfingu í námi og margbreytileika – sérkennslufræði árið 2019 og hlaut kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri árið 2020. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að upplifun og reynslu unglinga í grunnskóla eftir foreldramissi og viðbrögðum skólans.

Jórunn Elídóttir, Háskólinn á Akureyri - Hug- og félagsvísindasvið

Jórunn Elídóttir (je@unak.is) er dósent við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún er leikskólakennari, lærði sérkennslufræði í Noregi og lauk doktorsprófi í sérkennslufræðum frá Worcester University árið 2002. Hún var á árum áður leikskólasérkennari og síðar sérkennari og sérkennsluráðgjafi í grunnskólum. Kennslu- og rannsóknarsvið hennar eru menntun án aðgreiningar, sérkennslufræði, leikskólafræði og málefni er varða ættleidd börn.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar