„Tillaga að lífi“: Um örlögin í Norðrinu og endursköpun Agnesar í Náðarstund eftir Hönnuh Kent

Höfundar

  • Ingibjörg Ágústsdóttir

Lykilorð:

Hannah Kent, Agnes Magnúsdóttir, endurskoðunarhyggja og femínismi, Norðrið, landslag/náttúra

Útdráttur

Ástralska skáldkonan Hannah Kent varð heltekin af sögu Agnesar Magnúsdóttur þegar hún dvaldi eitt ár á Íslandi sem skiptinemi. Kent varði mörgum árum í að rannsaka ævi Agnesar og morðin á Illugastöðum árið 1828. Hún skrifaði skáldsöguna Náðarstund um Agnesi samhliða doktorsrannsókn í ritlist og vildi þar vinna gegn staðalímyndum sem einkenndu túlkanir á Agnesi og lýsa Agnesi
á margræðari hátt. Náðarstund er söguleg skáldsaga með femíníska endurskoðun í brennidepli sem setur fram „tillögu“ að mögulegu lífi Agnesar. Stuðst er við ritaðar heimildir, tengdar dómsmáli Agnesar, sem mynda eins konar sagnfræðilegan ramma í frásögninni, en innan hans er sögu Agnesar komið á framfæri í ljóðrænni fyrstu persónu frásögn, ásamt stuttum köflum þar sem sjónarhorni annarra persóna varðandi Agnesi er lýst. Saman vinna þessi mismunandi sjónarhorn gegn staðalímyndinni sem Kent vill afbyggja. Náðarstund er einnig skáldsaga sem setur Ísland og Norðrið í forgrunn, en sögusviðið myndar kjarnann í lýsingunni á Agnesi og hennar ólánssama lífi.
Bókin er á margan hátt drungalegur ástaróður til Íslands þar sem landslag, veður og náttúra eru þungamiðjan. Þetta eru kraftar sem móta og ákvarða líf sögupersónanna, sérstaklega Agnesar, því þótt þeir veiti Agnesi vissulega ánægju og hugarfró snúast þeir að lokum gegn henni, hneppa hana í fjötra og bera á vit örlaganna. Ýjað er að ákveðinni hringferð í sögu Agnesar, náttúru og umhverfi lýst á þann hátt að gefið er í skyn það sem koma skal, og tengingin milli veðurs og mannlegs hlutskiptis undirstrikuð. Að lokum er minnið um
drauma og fyrirboða mikilvægt í meðförum Kent á sögu Agnesar.


Lykilorð: Hannah Kent, Agnes Magnúsdóttir, endurskoðunarhyggja og femínismi, Norðrið, landslag/náttúra

Niðurhal

Útgefið

2022-12-28

Tölublað

Kafli

Greinar