Tækifæri eða tálsýn?: Kennslukannanir og annað mat á gæðum náms og kennslu

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.6

Lykilorð:

mat á gæðum náms og kennslu, kennslukannanir, háskólanám

Útdráttur

Gæðakerfi háskóla víðs vegar um heiminn hafa að leiðarljósi að tryggja gæði menntunar og að prófgráður standist alþjóðleg viðmið. Slík viðmið eru grunnur gæðamenningar þar sem starfsfólk háskóla og nemendur rýna starf skólans og vinna að umbótum á hverjum tíma. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna með viðtölum við stjórnendur, kennara og nemendur í íslenskum háskóla, hvernig mat er lagt á gæði náms og kennslu við skólann, hvaða sýn þeir hafa á matið og hvernig unnið er með niðurstöður þess. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fjóra stjórnendur, tvö rýnihópaviðtöl við níu kennara og fjögur rýnihópaviðtöl við 15 nemendur. Meginniðurstaða rannsóknarinnar er að til þess að fá heildstætt mat á gæðum náms og kennslu sé mikilvægt að kalla eftir fjölbreyttu mati. Kennslukönnun gegni ákveðnu hlutverki við að fá yfirsýn á námsleiðir og gengi námskeiða og hún gefi möguleika á samanburði á gæðum náms og kennslu innan háskóla. Þó sé nauðsynlegt að bregðast við ábendingum stjórnenda, kennara og nemenda um framkvæmd kennslukönnunar og inntak spurninga sem þurfi að eiga við það nám og námsumhverfi sem spurt er um. Þá þurfi að hvetja nemendur til aukinnar þátttöku bæði í kennslukönnunum, matsfundum, ráðum og nefndum þar sem fjallað er um nám og kennslu. Aðkoma kennara og stjórnenda sé jafnframt brýn, bæði þurfi þeir að kynna sér niðurstöður mats og hlusta á raddir nemenda með það að markmiði að gera umbætur á námi og kennslu. Allir þátttakendur voru sammála um að öflugt samtal og samstarf nemenda, kennara og stjórnenda væri lykilaðferð við að meta gæði náms og grunnur að áframhaldandi þróun þess.

Um höfund (biographies)

Ragný Þóra Guðjohnsen, Háskóli Íslands

Ragný Þóra Guðjohnsen (ragny@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands (HÍ). Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2016, MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2009 og embættisprófi í lögfræði árið 1992, allt frá HÍ. Hún lauk einnig viðbótardiplómu í kennslufræði háskóla árið 2019 frá HÍ. Rannsóknir hennar snúa einkum að borgaravitund og borgaralegri þátttöku ungmenna, áhættuhegðun og velferð ungs fólks og kennslufræðum háskóla.

Eygló Rúnarsdóttir, Háskóli Íslands

Eygló Rúnarsdóttir (er@hi.is) er aðjunkt í tómstunda- og félagsmálafræði við MVS. Hún lauk MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2011 og viðbótardiplómu í kennslufræði háskóla árið 2021, bæði frá HÍ og B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræðum árið 1996 frá Kennaraháskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að ungu fólki, frítíma og tómstundum og kennsluþróun háskóla.

Védís Grönvold, Háskóli Íslands

Védís Grönvold (vedis@hi.is) er kennslustjóri á MVS. Hún lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands og B.Ed.-prófi í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands. Hún lauk MA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá HÍ og MA-gráðu í menntarannsóknum frá University of Cambridge.

Lóa Guðrún Gísladóttir, Háskóli Íslands

Lóa Guðrún Gísladóttir (lgg@hi.is) er aðjunkt við MVS. Hún lauk B.Sc.gráðu í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá HÍ.

Niðurhal

Útgefið

2022-05-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar