Vímuefnaneysla ungmenna skoðuð í ljósi líðanar þeirra og tengsla við foreldra

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.9

Lykilorð:

ungmenni, andleg vanlíðan, sállíkamleg einkenni, vímuefnaneysla, tengsl við foreldra, HBSC

Útdráttur

Á unglingsárum takast einstaklingar á við ýmsar breytingar og áskoranir. Góð andleg líðan er forsenda velferðar fólks og því vekur það áhyggjur að henni fer hrakandi hjá ungmennum á Vesturlöndum. Áhyggjur beinast einnig að vímuefnaneyslu ungmenna en sífellt koma fram nýjar áskoranir í því efni. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja andlega líðan og vímuefnaneyslu ungmenna og skoða samband þessara þátta við gæði tengsla við foreldra og kyn. Einnig átti að kanna hjá ungmennum samband andlegrar líðanar, gæða tengsla við foreldra, kyns og efnahagslegs bakgrunns við áfengis- og kannabisneyslu. Notuð voru gögn úr rannsókninni Heilsa og lífskjör skólabarna þar sem nemendur í 10. bekk svöruðu spurningalistakönnun. Niðurstöður gáfu til kynna að fjórðungur ungmenna upplifði slök tengsl við foreldra og að þau væru líklegri en hin sem upplifa góð eða mjög góð tengsl, til að líða illa og nota vímuefni. Stúlkur notuðu ekki minna áfengi en drengir þó kannabisneysla þeirra væri minni, þær voru líklegri en drengir til að meta tengsl við foreldra slök og ólíklegri til að meta tengslin mjög góð. Tengsl voru einnig milli andlegrar vanlíðanar ungmenna, slakra tengsla við foreldra og verri fjárhagsstöðu fjölskyldu og þess að vera líklegri en þau sem líður betur, hafa betri tengsl og búa við betri fjárhagsstöðu, til að nota bæði áfengi og kannabis. Jafnframt voru tengsl milli vanlíðunar og vímuefnaneyslu óháð tengslum ungmenna við foreldra. Nýta þarf snemmbær inngrip þegar einkenni um andlega vanlíðan gera vart við sig. Hvetja þarf foreldra til að hlúa að góðum tengslum við börn sín og auka þarf þekkingu og hæfni uppeldisaðila til þess að bregðist við vanlíðan ungmenna. Loks þarf að tryggja betra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í samfélaginu og draga þannig úr líkum á að andleg vanlíðan á unglingsárum þróist á verri veg og ungmenni leiti til bjargráða eins og vímuefna til þess að deyfa hana.

Um höfund (biographies)

Ragný Þóra Guðjohnsen

Ragný Þóra Guðjohnsen (ragny@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk embættisprófi í lögfræði 1992, MS-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði 2009 og doktorsprófi í sömu grein árið 2016 frá Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa annars vegar að áhættuhegðun og velferð ungs fólks og hins vegar að borgaravitund og borgaralegri þátttöku ungmenna.

Ársæll Arnarsson

Ársæll Arnarsson (arsaell@hi.is) er prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi í sálfræði 1993, MS-gráðu í heilbrigðisvísindum 1997 og PhD-gráðu í líf- og læknavísindum árið 2009 frá Háskóla Íslands. Síðastliðinn áratug hafa rannsóknir hans aðallega beinst að heilsufari og líðan unglinga.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-08

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar