„Gott nám er eitthvað sem hvetur mann til þess að vaxa“

Sýn nemenda, kennara og stjórnenda á gæði náms og kennslu í háskólum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2024/4

Lykilorð:

háskólamenntun, gæði náms og kennslu, sýn ólíkra hagaðila

Útdráttur

Aukin sókn eftir háskólamenntun og fjölbreytt sýn á hlutverk hennar hefur aukið kall eftir rannsóknum á gæðum háskólanáms og til hvers þau vísi. Þrátt fyrir ýmis gæðaviðmið, þá er gæðahugtakið marglaga og sýn hagaðila á gæði gjarnan ólík. Í rannsókninni var leitað eftir sýn stjórnenda, kennara og nemenda innan íslensks háskóla til þess hvað felist í gæðum náms og kennslu og hvaða leiðir styðji við gæði. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fjóra stjórnendur og rýnihópaviðtöl við níu kennara og 15 nemendur. Í niðurstöðum kom fram að viðmælendur voru sammála um nokkrar lykilstoðir gæða í háskólanámi og farsælar leiðir til að styðja þær. Aðstæðubundinn munur var þó í áherslum viðmælendahópanna og mismunandi sýn á merkingu þess að ‘menntast’. Nemendur sóttust eftir hagnýtu námi sem nýtist á vinnumarkaði, skýru skipulagi náms og fjölbreyttum nútímalegum kennsluháttum sem gerði þeim kleift að stunda nám samhliða starfi og fjölskylduskyldum. Stjórnendur og kennarar lögðu áherslu á að námið veitti nemendum hagnýta þekkingu og hæfni fyrir starfsvettvang en jafnframt tækifæri til að kafa í viðfangsefni og þróa gagnrýna hugsun og samfélagssýn. Þeir töldu eins og nemendur að gera ætti skýrar námskröfur og vanda til uppbyggingar náms og kennsluhátta. Minni námshelgun nemenda drægi hins vegar úr gæðum og umbreytandi námsþáttum. Kennarar hefðu mætt þróuninni og tileinkað sér tæknikunnáttu og nýjar kennslufræðiáherslur sem hefðu aukið álag í akademísku starfi. Allir viðmælendur töldu góð samskipti innan námssamfélagsins forsendu umbóta og þróunar náms. Áskorun væri þó að fá nemendur til samstarfs vegna annríkis. Af niðurstöðum má ráða að gæðastarf í háskólanámi þurfi að vera viðvarandi og að bregðast þurfi við breyttum aðstæðum í samfélaginu á hverjum tíma til að tryggja gæði náms. Hér á landi þurfi jafnframt að stuðla að tækifærum nemenda til aukinnar námshelgunar og standa vörð um starfsskilyrði háskólastofnana, kennara og stjórnenda.

Um höfund (biographies)

Ragný Þóra Guðjohnsen, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ragný Þóra Guðjohnsen (ragny@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands (HÍ). Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2016, MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2009 og embættisprófi í lögfræði árið 1992, allt frá HÍ. Hún lauk einnig viðbótardiplómu í kennslufræði háskóla árið 2019 frá HÍ. Rannsóknir hennar snúa einkum að borgaravitund og borgaralegri þátttöku ungmenna, áhættuhegðun og velferð ungs fólks og kennslufræði háskóla.

Eygló Rúnarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Eygló Rúnarsdóttir (er@hi.is) er aðjunkt í tómstunda- og félagsmálafræði við MVS. Hún lauk MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2011 og viðbótardiplómu í kennslufræði háskóla árið 2021, báðum frá HÍ, og B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræðum árið 1996 frá Kennaraháskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að ungu fólki, frítíma og tómstundum og kennsluþróun háskóla.

Lóa Guðrún Gísladóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Lóa Guðrún Gísladóttir (lgg@hi.is) er aðjunkt í uppeldis- og menntunarfræði og foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við MVS. Hún lauk MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2018, B.Sc.-gráðu í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016. Rannsóknir hennar snúa að foreldrafræðslu, velferð barna og ungmenna, kynheilbrigði ungmenna og háskólakennslu.

Niðurhal

Útgefið

2024-05-28

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar