„Beint flug er næs“
Svæðisbundin áhrif millilandaflugs frá Akureyri
Lykilorð:
Millilandaflug; samfélagsáhrif; Norðurland.Útdráttur
Flugsamgöngur hafa mikil áhrif á efnahagslega, pólitíska og menningarlega stöðu einstakra samfélaga. Á síðustu áratugum hefur fyrirkomulag flugs hefðbundinna flugfélaga um stóra tengiflugvelli skapað margvísleg sóknarfæri fyrir beint flug óhefðbundinna flugfélaga. Á Íslandi hefur millilandaflug um Keflavíkurflugvöll og rekstrarlíkan Icelandair valdið umtalsverðum ójöfnuði milli landshluta í aðgengi að utanlandsferðum og hvatt til opnunar fleiri gátta inn í landið. Hér er fjörutíu ára saga millilandaflugs um Akureyrarflugvöll rakin í ljósi þróunar farþegaflugs á Vesturlöndum og mat lagt á áhrif einstakra flugfélaga. Niðurstöður sýna að slíkt flug hefur dregið verulega úr ójöfnuði í utanlandsferðum og aukið lífsgæði íbúanna. Um þriðjungur Akureyringa ferðaðist milli landa með Niceair á tíu mánaða tímabili 2022–23 og flugið jók einnig lífsgæði þeirra sem ekki nýttu sér það. Annars staðar á Norðurlandi eystra stuðlaði flug Niceair einnig að auknum utanlandsferðum og hafði nokkur áhrif á lífsgæði en áhrifin voru lítil á Norðurlandi vestra og Austurlandi. Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum. Að lokum er lagt heildarmat á samfélagsleg áhrif og framtíðarhorfur millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi

Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).