„COVID bjargaði mér“: störf kennara í fyrstu bylgju heimsfaraldurs

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.16

Lykilorð:

COVID-19, kennarar, skóli án aðgreiningar, alsæishyggja, aðstöðumunur, orðræða

Útdráttur

Sá fáheyrði atburður gerðist snemma árs 2020 að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir heimsfaraldri af völdum COVID-19 veirunnar. Smit bárust til Íslands og líkt og í öðrum löndum heims var brugðist við með samkomubanni og fjarlægðarreglum, sem varð til þess að skólastarf raskaðist og kennarar þurftu að breyta kennsluháttum og skipulagi. Þrátt fyrir að íslenskir grunnskólanemendur hafi átt kost á að sækja sinn skóla hluta úr degi varð veruleg röskun á skólastarfi. Á Íslandi er skóli án aðgreiningar yfirlýst skólastefna þar sem mætt skal þörfum nemenda á einstaklingsgrundvelli. Í greininni er sagt frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á upplifun og reynslu kennara í grunnskólum án aðgreiningar á tímum COVID-19. Sjónum er beint sérstaklega að upplifun og reynslu kennara af skólastefnunni fyrir tíma heimsfaraldurs og því síðan lýst hvaða áhrif heimsfaraldurinn hafði á störf þeirra og aðstæður nemenda. Í greininni er hugmyndum Michel Foucault um stjórnvaldstækni (e. governmentality) beitt í þeim tilgangi að útskýra hvernig kennurum og skólastarfi er stjórnað. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 14 grunnskólakennarar sem allir störfuðu á miðstigi eða höfðu reynslu af kennslu á miðstigi. Viðtöl voru tekin á tímabilinu febrúar–september 2020. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þeir kennarar sem tóku þátt í rannsókninni hafi bæði upplifað jákvæð og neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins á störf sín og líðan. Þeir lýstu mikilli stýringu og eftirliti með skólastarfi sem þeir töldu breytast við neyðarstig almannavarna og upplifðu aukið frelsi. Þeir töldu sig njóta meira trausts til að stýra betur með hvaða hætti þeir skipulögðu kennslu og nám. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum afhjúpuðu aðstöðumun milli skóla og heimila hvað tölvutækni varðar. Um leið og kennarar sáu jákvæðar hliðar á skertu skólastarfi verður ekki horft fram hjá því að ákveðin forréttindahyggja ríkti við neyðarstigið sem hefur hvað mest áhrif á þá nemendur sem standa höllum fæti í skólakerfinu sökum fötlunar, heimilisaðstæðna og uppruna.

Um höfund (biographies)

Kristín Björnsdóttir

Kristín Björnsdóttir (kbjorns@hi.is) er prófessor í fötlunarfræði og sérkennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BM-prófi í músíkþerapíu frá East Carolina University í Bandaríkjunum 1997, fékk kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1999, lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2002 og doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2009. Kristín starfaði um árabil með fötluðum börnum og ungmennum í skólakerfi og tómstundum. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að skólagöngu og samfélagsþátttöku fólks með þroskahömlun og samspili menningar, kyngervis og fötlunar. Kristín var umsjónarmaður starfstengds diplómunáms fyrir fólk með þroskahömlun og námsleiðar í sérkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir (eiriksina@gmail.com) er sjálfstætt starfandi rannsakandi og rýnir. Hún lauk B.Ed.-prófi frá KHÍ 1990, BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2003 og MA-prófi í almennri bókmenntafræði frá sama skóla 2005. Eiríksína hefur komið víða við og haldið fyrirlestra, listsýningar og staðið fyrir gjörningum þar sem hún vinnur með tungumálið í sinni algildustu mynd. Rannsóknir hennar og rýni hafa einkum snúist um feminíska bókmenntagreiningu þar sem sjónarhornið er á ást, grótesku, mismunun og hvernig viðhorf til minnihlutahópa opinberast í skáldsögum, almannarómi og opinberri umræðu.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-18