Milliliður, stuðningsaðili eða hlutlaus fylgdarmaður: Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.8

Lykilorð:

aðstoðarfólk, fólk með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning, nám, virkur stuðningur

Útdráttur

Fólk með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning hefur haft takmarkaðan aðgang að námi og litla möguleika til að nýta sér nám í daglegu lífi. Gera má ráð fyrir að þeim fjölgi sem geta nýtt sér aðstoðarfólk úr búsetuþjónustunni í námi. Því er þörf á að skilgreina hlutverk aðstoðarfólks betur í námi fatlaðs fólks. Tilgangur greinarinnar er að lýsa rannsókn sem hafði það að markmiði að fá innsýn í hvernig aðstoðarfólk sér fyrir sér hlutverk sitt.. Þátttakendur í rannsókninni voru sex aðstoðarmenn sem höfðu reynslu af að fylgja fólki á námskeið hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð. Fólkið sem naut aðstoðar þeirra tjáði sig með óhefðbundnum tjáskiptaaðferðum og þurfti mikinn stuðning í daglegu lífi. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem fram fór á tímabilinu mars 2018 til janúar 2019. Í niðurstöðunum kom fram hvernig viðmælendur mótuðu hlutverk sitt og greind voru þrjú ólík hlutverk aðstoðarfólks sem í rannsókninni nefnast milliliðurinn, stuðningsaðilinn og hinn hlutlausi fylgdarmaður. Þættir sem höfðu áhrif á hvernig hlutverkið mótaðist voru meðal annars sýn aðstoðarfólksins á hlutverk kennarans sem og viðhorf aðstoðarfólks til starfsins og til náms þeirra sem það aðstoðaði. Einnig virtist skipulag þjónustunnar og skortur á sameiginlegri sýn í starfsmannahópnum hafa áhrif. Út frá niðurstöðunum má draga þá ályktun að bæta þurfi leiðbeiningar um hlutverk aðstoðarfólks og gera kennara meðvitaða um eigið hlutverk gagnvart aðstoðarfólki. Einnig þarf að bæta viðhorf til mikilvægis náms fyrir fólk með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að innleiðing nálgunar um virkan stuðning í búsetuþjónustu geti stutt við hlutverk aðstoðarfólks í námi fatlaðs fólks og stuðlað að því að það geti nýtt sér nám til jafns við aðra.

Um höfund (biographies)

Helle Kristensen

Helle Kristensen (helle@fjolmennt.is) er kennari og verkefnastjóri hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð og hefur kennt þar frá árinu 2007. Hún lauk B.Ed.-námi í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006 og M.Ed.-prófi í sérkennslufræði og skóla margbreytileikans frá Háskóla Íslands 2019. Helle hefur fjölbreytta reynslu af starfi með fötluðu fólki, meðal annars sem aðstoðarmaður í lýðháskóla og á heimili og einnig sem stuðningsforeldri. Starf hennar hjá Fjölmennt hefur sérstaklega beinst að innleiðingu snjalltækja í kennslu og daglegu lífi sem og samstarfi við starfsfólk þátttakenda í búsetuþjónustu.

Kristín Björnsdóttir

Kristín Björnsdóttir (kbjorns@hi.is) er prófessor í fötlunarfræði og sérkennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BM-prófi í músíkþerapíu frá East Carolina University í Bandaríkjunum 1997, fékk kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1999, lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2002 og doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2009. Auk þess stundaði hún nám í fötlunarfræði við University of Sheffield í Bretlandi. Kristín starfaði um árabil með fötluðum börnum og ungmennum í skólakerfi og tómstundum. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að skólagöngu og samfélagsþátttöku fólks með þroskahömlun og samspili menningar, kyngervis og fötlunar. Kristín var umsjónarmaður starfstengds diplómunáms fyrir fólk með þroskahömlun og námsleiðar í sérkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-05

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar