„Þá má ekki missa kúlið“ Tilfinningar og tilfinningavinna grunnskólakennara

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.14

Lykilorð:

tilfinningar, tilfinningahagkerfi, tilfinningavinna, grunnskólakennarar

Útdráttur

Kulnun í kennslu hefur talsvert verið í umræðunni undanfarin misseri og er yfirleitt rakin til aukins álags í störfum kennara. Á vettvangi stjórnmála og í allri umfjöllun um skólamál er mikil áhersla lögð á árangursríkt skólastarf. Árangurinn er metinn með samræmdum mælingum og skimunum en um leið er farið fram á vissan sveigjanleika þar sem öllum nemendum skal mætt á einstaklingsgrundvelli. Þegar uppi er grunur um að árangur hafi ekki náðst eða að ákveðnum nemendahópum líði illa í skólanum verður almannarómur hávær þar sem skuldinni er skellt á skólakerfið og kennara með óvæginni gagnrýni. Almannarómur hefur skipað kennurum í sérstaka samfélagsstöðu og þegar sú staða er skoðuð í samhengi við heilsu þeirra vakna spurningar um líðan þeirra í vinnunni og hvernig þeir takast á við tilfinningar sínar í kennslu margbreytilegra nemendahópa. Í þessari grein eru skoðaðar tilfinningar og tilfinningavinna (e. emotional labour) kennara og bent á hvaða þættir stjórna þeim. Gerð er grein fyrir niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtöl voru tekin við 14 grunnskólakennara sem höfðu reynslu af kennslu í margbreytilegum nemendahópum. Í greininni verða niðurstöður settar í samhengi við kenningar Söru Ahmed um svokallað tilfinningahagkerfi (e. affective economies) og Arlie Hochschild um tilfinningavinnu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að tilfinningar kennara séu fjölbreyttar, síbreytilegar og sveif list í samræmi við álagspunkta skólaársins. Kennarastarfinu virðast fylgja tilfinningar á borð við ástríðu, umhyggju, skömm og sektarkennd. Kennarar þurfa meðal annars að stjórna tilfinningum sínum í samskiptum við stjórnendur, nemendur og foreldra til að skapa traust og jákvætt andrúmsloft til náms um leið og þeir þurfa oft að sætta ólík sjónarmið og skoðanir allra hagsmunaaðila skólastarfsins. Mikilvægt er að skoða tilfinningar og tilfinningavinnu í skólastarfi svo mögulegt sé að draga úr tilfinningavinnu kennara og skapa þannig betra andrúmsloft og vinnuumhverfi öllu skólastarfi í hag.

Um höfund (biographies)

Kristín Björnsdóttir

Kristín Björnsdóttir (kbjorns@hi.is) er prófessor í fötlunarfræði og sérkennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BM-prófi í músíkþerapíu frá East Carolina University í Bandaríkjunum 1997, fékk kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1999, lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2002 og doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2009. Kristín starfaði um árabil með fötluðum börnum og ungmennum í skólakerfi og tómstundum. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að skólagöngu og samfélagsþátttöku fólks með þroskahömlun og samspili menningar, kyngervis og fötlunar. Kristín var umsjónarmaður starfstengds diplómunáms fyrir fólk með þroskahömlun og námsleiðar í sérkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir (eiriksina@gmail.com) er sjálfstætt starfandi rannsakandi og rýnir. Hún lauk B.Ed.-prófi frá KHÍ 1990, BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2003 og MA-prófi í almennri bókmenntafræði frá sama skóla 2005. Eiríksína hefur komið víða við og haldið fyrirlestra, listsýningar og staðið fyrir gjörningum þar sem hún vinnur með tungumálið í sinni algildustu mynd. Rannsóknir hennar og rýni hafa einkum snúist um feminíska bókmenntagreiningu þar sem sjónarhornið er á ást, grótesku, mismunun og hvernig viðhorf til minnihlutahópa opinberast í skáldsögum, almannarómi og opinberri umræðu.

Niðurhal

Útgefið

2021-12-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar