Málsýni leikskólabarna - Aldursbundin viðmið

Höfundar

  • Jóhanna Thelma Einarsdóttir
  • Álfhildur Þorsteinsdóttir

Lykilorð:

málsýni, meðallengd segða, orðaforði, málfræðivillur, kynjamunur

Útdráttur

Tilgangur rannsóknarinnar var að finna aldursbundin viðmið fyrir máltjáningu íslenskra leikskólabarna út frá sjálfsprottnu tali eins og það birtist í málsýnum. Skoðaðir voru eftirtaldir þættir: Meðallengd segða (MLS), heildarfjöldi orða (HFO), fjöldi mismunandi orða (FMO) og hlutfallslegur fjöldi villna. Einnig var athugað hvort kynbundinn munur væri á ofangreindum mæliþáttum. Þátttakendur voru 221 íslensk leikskólabörn á aldrinum 2;6–6;6 ára, eintyngd og ekki með greind þroskafrávik. Tekið var hentugleikaúrtak og níu leikskólar valdir (átta á höfuðborgarsvæðinu og einn á Suðurlandi). Bréf var sent til allra foreldra sem áttu börn á tilskyldum aldri í leikskólunum og samþykktu 53% að taka þátt. Málsýnin voru tekin upp í leikskólunum og síðan var tal barnsins og viðmælanda afritað. Hugbúnaðurinn Málgreinir (Jóhanna T. Einarsdóttir og Jón Benediktsson, 2014) var notaður við úrvinnslu gagnanna. Helstu niðurstöður voru þær að MLS lengdist og HFO og FMO hækkaði með auknum aldri. Málfræðivillur voru hlutfallslega sjaldgæfar í máli barnanna og fækkaði þeim marktækt með auknum aldri. Mikil dreifing var innan barnahópsins og einstaklingsmunur á því í hversu löngum setningum börnin töluðu og hvað þau notuðu fjölbreytt orð. Ekki var marktækur munur eftir kynjum á þessum mæliþáttum. Niðurstöðurnar hafa gildi fyrir alla þá sem vinna með og rannsaka málþroska íslenskra barna. Þær eru mikilvægar við greiningu á málþroskafrávikum, athugun á greiningu barna sem tala íslensku sem annað mál, mælingum á framförum í meðferð og skipulagningu íhlutunar. Málsýni af sjálfsprottnu tali eru mikilvæg viðbót við athuganir og rannsóknir á málþroska samhliða stöðluðum prófum.

Um höfund (biographies)

Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Jóhanna T. Einarsdóttir (jeinars@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk meistaraprófi í talmeinafræði við Kennaraháskólann í Kiel í Þýskalandi árið 1986 og doktorsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2009. Rannsóknir Jóhönnnu hafa beinst að máltöku barna og hljóðkerfisvitund en einnig hefur hún rannsakað stam barna og fullorðinna.

Álfhildur Þorsteinsdóttir

Álfhildur Þorsteinsdóttir (alfhildurthorsteins@gmail.com) er talmeinafræðingur hjá Sveitarfélaginu Árborg. Hún lauk meistaraprófi í talmeinafræði árið 2012 frá Háskóla Íslands og hóf þá störf hjá Rangárþingi ytra og Skólaskrifstofu Suðurlands við greiningar og talþjálfun barna. Árið 2014 hóf hún störf hjá Skólaþjónustu Árborgar og sinnir þar greiningum og talþjálfun.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar