„Organsláttur lífsins“ og blístur almættisins

Organistinn og séra Jón Prímus í taóísku ljósi

Höfundar

  • Kristín Nanna Einarsdóttir

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.33112/millimala.15.1.5

Lykilorð:

Halldór Laxness, Kristinhald undir Jökli, Atómstöðin, íslensk bókmenntasaga, taóismi/daoismi

Útdráttur

Víða á höfundarferli Halldórs Laxness má greina áhrif frá Bókinni um veginn, en meðal skáldsagnapersóna sem mótast að töluverðu leyti af taóisma eru organistinn í Atómstöðinni (1948) og séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli (1968). Á ýmsan hátt lifa organistinn og séra Jón Prímus í anda hinna taóísku spekinga; þeir eru einsetu- og meinlætamenn sem hafa dregið sig út úr „skarkala heimsins“ og lifa í samræmi við boðskap Bókarinnar um veginn um dygðugt aðgerðaleysi. Þá samræmist náttúrusýn þeirra hugmyndum taóismans um hið eilífa ferli veraldarinnar sem allar verur umbreytast innan. Orðræða organistans um „blómin ófeigu“ á sér einkum hliðstæðu í náttúruhugmyndum taóismans og sú skoðun séra Jóns Prímusar að almættinu megi finna „sæti hvar sem er; í hverju sem er“ kallast á við skilning Bókarinnar um veginn á hugtakinu „dao“. Áhrifa frá taóismanum gætir einnig í stjórnleysishugmyndum organistans, en þær fela oftar en ekki í sér róttæka gagnrýni á hið borgaralega siðgæði. Þá á friðar- og samkomulagshugsjón séra Jóns Prímusar hljómgrunn í taóismanum og boðskap Bókarinnar um veginn gegn stríði og græðgi. Organistinn og séra Jón Prímus tala hvor fyrir sínum pólitíska málstað í Atómstöðinni og Kristnihaldi undir Jökli en lífssýn sína boða þeir fyrst og fremst með óbilandi umburðarlyndi og hinni taóísku hugmynd um „dygð án dygða“.

Um höfund (biography)

  • Kristín Nanna Einarsdóttir

    Kristín Nanna Einarsdóttir (f. 1995) lauk BA-prófi í íslensku og MA-prófi í ritlist frá Háskóla Íslands. Hún stundar nám í íslenskukennslu við sama skóla og starfar á Gljúfrasteini - húsi skáldsins.

Niðurhal

Útgefið

2025-02-24