Þar sem sögunni lýkur tekur taó við

Höfundar

  • Halldór Guðmundsson

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.33112/millimala.15.1.7

Lykilorð:

Halldór Laxness, Taó, frásagnargerð, sviðsetning, valkostur við sagnagerð

Útdráttur

Þegar leið á skáldsagnaritun Halldórs Laxness þótti mörgum sem leiðsögn sögumannsins væri horfin, merkingarmyndunin komin til lesandans. Það hefur verið tengt auknum áhrifum taóismans hjá Halldóri, hann skapi fleiri taóískar persónur, fullar af auðmýkt og umburðarlyndi, friðsemd og án veraldlegs metnaðar.

Í þessari grein er reynt að bæta við annarri vídd. Taóisminn hefur verið til staðar í verki Halldórs allt frá handritinu sem nefnt er Rauða kverið og hann samdi 19 ára. Hann hefur verið valkostur við þjóðfélagsbaráttu eða persónulegan metnað, hvort heldur sögumanns eða persóna hans, alveg frá upphafi höfundarferilsins.

Epískar frásagnir eru settar saman úr tveimur byggingarefnum: endursögn og sviðsetningu. Endursögnin rekur þráð sögunnar, við sviðsetningarnar staðnæmast sögumaður og lesandi. Sviðsetningar eru einatt hugsaðar til að styrkja frásögnina og þessir grunnþættir vinna saman að framvindu sögunnar. En á stöku stað eru sviðsetningar eða myndir hjá Halldóri sem hafa ekkert með framvindu sögunnar að gera, og bera vitni um allt annað líf, líf utan sögu.

Í greininni eru nefnd sem dæmi þrjú svið, bærinn undir jökli í Heimsljósi, Eystridalur í Atómstöðinni og Jökullinn í Kristnihaldinu. Þar stendur tíminn kyrr, þar er engin frásögn. Þar er stigið út úr sögunni, framvindan nemur staðar, þar er engin saga.

Þessar senur hafa því fylgt Halldóri alla tíð – andstæða þess að segja sögu, ekki bara afneitun sjálfsins og metnaðarins, heldur líka afneitun sögunnar. Taó gat verið honum táknmynd þess sem hann kallaði í ritgerð um Bókina um veginn „tómið ríka djúpa“, valkosturinn við sjálfa sagnagerðina sem annars var veruháttur Halldórs sem höfundar

Um höfund (biography)

  • Halldór Guðmundsson

    Halldór Guðmundsson (f. 1956) lauk mag.art. prófi í almennri bókmenntafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur meðal annars skrifað ævisögu Halldórs Laxness og lengst af starfað við bókaútgáfu.

Niðurhal

Útgefið

2025-02-24