„Ég hreinlega get ekki beðið eftir að hefjast handa“
Áhugahvöt og virkni nemenda í háskólanámi
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/netla.2024/6Lykilorð:
áhugahvöt, háskólanám, háskólakennsla, námskrá, nemendaþátttaka, MUSIC-líkanið, fræðimennska náms og kennslu (SoTL)Útdráttur
Greinin segir frá rannsókn höfunda á þremur námskeiðum áherslusviðsins Upplýsingatækni í námi og kennslu sem kennt er á meistarastigi í Háskólanum á Akureyri. Markmið þess hluta rannsóknarinnar sem greinin beinir athyglinni að var að varpa ljósi á upplifun nemenda af námskeiðum þar sem lögð var áhersla á virka þátttöku nemenda í mótun námskrár og hvort og þá hvernig sú upplifun rímaði við lykilþætti MUSIC-líkansins, en rannsóknir hafa sýnt að þessir lykilþættir efli áhugahvöt og virkni nemenda, séu þeir til staðar. Gagna var aflað um upplifun þátttakenda af námskeiðunum og MUSIC-líkanið nýtt sem greiningarrammi við úrvinnslu gagna.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru að nemendur upplifðu valdeflingu, gagnsemi, góðan árangur, áhuga og umhyggju í námskeiðunum, þ.e.a.s. þá lykilþætti sem MUSIC-líkanið samanstendur af. Þær sýna líka ótvíræð merki um að þessir þættir hafi skilað sér í sterkri áhugahvöt, virkni í námsferlinu öllu og eflt með nemendum seiglu þegar þau stóðu frammi fyrir áskorunum. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að þátttaka nemenda í mótun námskrár námskeiðanna hafi átt þátt í þessari upplifun þeirra.
Um leið og höfundar setja þann fyrirvara að niðurstöðurnar byggja á gögnum frá tiltölulega fáum einstaklingum vegur á móti að fjölbreyttum gögnum var safnað og það skapaði bæði breidd og dýpt þegar horft er á niðurstöðurnar. Að mati greinarhöfunda veitir rannsóknin dýrmætar upplýsingar um nám háskólanemenda sem hafa gildi fyrir háskólakennara, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu tilliti, innan fræðasviðs kennslufræðilegra rannsókna á háskólastigi.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Anna Ólafsdóttir, Sólveig Zophoníasdóttir

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).