„Þetta hefur opnað dyr“: Reynsla háskólakennara sem rannsakenda eigin kennslu.

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.88

Lykilorð:

fræðimennska náms og kennslu, háskólakennarar, kennsluþróun, rannsóknir á eigin kennslu

Útdráttur

Í greininni verður fjallað um rannsókn sem höfundar unnu meðal háskólakennara sem stunduðu diplómunám í háskólakennslufræðum á vegum Menntavísindasviðs og Kennslumiðstöðvar HÍ á árunum 2014–2016. Markmið diplómunámsins er meðal annars að efla kennslufræðilegar rannsóknir og fræðilega nálgun í háskólakennslu og byggir námið á hugmyndum um fræðimennsku náms og kennslu (e. Scholarship of Teaching and Learning – SoTL). Í náminu glíma þátttakendur við að gera rannsóknir á sviði kennslufræða sem flestum er nýlunda. Tekin voru rýnihópaviðtöl við tvo hópa háskólakennara sem voru eða höfðu verið þátttakendur í háskólakennslufræði og reynsla þeirra af að vera rannsakendur eigin kennslustarfs könnuð. Helstu niðurstöður voru þær að þótt þátttakendurnir væru öll reyndir rannsakendur á sínum fræðasviðum fylgdu því þekkingarfræðilegar, aðferðafræðilegar og siðferðilegar áskoranir að fóta sig innan menntunarfræðanna. Í greininni verður gerð grein fyrir reynslu þátttakenda af náminu og þeim áskorunum sem þau glímdu við í rannsóknum sínum. Jafnframt verða niðurstöður ræddar í ljósi breyttra hugmynda og viðhorfa til formlegrar kennsluhæfni þeirra sem sinna kennslu á háskólastigi.

Um höfund (biographies)

Anna Ólafsdóttir, Háskólinn á Akureyri - Hug- og félagsvísindasvið

Anna Ólafsdóttir (anno@unak.is) er dósent við Háskólann á Akureyri. Hún lauk B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1983, meistaragráðu 2003 frá sama skóla og doktorsprófi í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2014. Anna starfaði um árabil við almenna kennslu, tónlistarkennslu og kennslu í tölvu- og upplýsingatækni á ýmsum aldursstigum. Hún hefur gegnt akademískri stöðu við Háskólann á Akureyri frá árinu 2004. Rannsóknir Önnu hafa einkum beinst að námi og kennslu á háskólastigi, hlutverki háskóla í samfélaginu og gæðamálum háskóla

Guðrún Geirsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Guðrún Geirsdóttir (gudgeirs@hi.is) er dósent í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Hún er jafnframt deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að námskrárgerð, kennsluháttum og kennsluþróun á háskólastigi. Guðrún er með doktorspróf í menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands, M.Sc. í námskrárfræðum frá Pennsylvania State University og BA-gráðu í uppeldisfræðum auk kennsluréttinda frá Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar