Laumast út um bakdyrnar Höfundur og sköpulag konunnar í A hora da estrela eftir Clarice Lispector

Höfundar

  • Arnór Ingi Hjartarson

Lykilorð:

Clarice Lispector, Hour of the Star, brasilískar bókmenntir, sjálfsögur, bókmenntagreining

Útdráttur

Í þessari grein er tekist á við síðasta skáldverkið sem brasilíski rithöfundurinn Clarice Lispector birti á meðan hún lifði, A hora da estrela, eða Stund stjörnunnar. Margbrotið skáldverk, þó smátt sé í sniðum, sem kalla mætti sjálflýsandi skáldsögu, sjálfsögu eða „sögusögn“ sem tekst beinlínis á við eigin tilurð. Þetta er saga af sögu, því að eitt helsta sköpunarverk Lispector er sögumaðurinn Rodrigo S.M. sem gerist höfundur og skapar persónuna Macabéu og um leið sjálfan sig. Því mætti jafnvel tala um eins konar sköpunarsögu. Bókin segir einum þræði frá sambandi höfundar og sköpunarverks, skapara og persónu, og veltir upp flóknum og áleitnum spurningum um sköpunarferlið,
skáldskapinn og hina hliðina á speglinum; veruleikann, samfélagið, heiminn. Þetta er saga sem fjallar með beinum hætti um skáldskap og varpar töfrandi ljósi á ást og sköpun, líf og dauða, veruleika og sköpunarverk. Hún varpar sérstöku ljósi á þau ýmsu frásagnarsvið sem skáldsagan er ofin úr, þar sem mörkin á milli þeirra eru dregin inn í skáldskapinn sjálfan og raunhöfundur, innbyggður
höfundur, söguhetja og lesandi rekast á og renna nánast saman. Í grundvallaratriðum er um að ræða verk sem skrifað er af kvenhöfundi og fjallar um karlhöfund sem skapar kvenpersónu um leið og hann skapar sjálfan sig svo að úr verður forvitnilegt ástarsamband sem hrífur lesandann með sér. Hér verður rýnt í „karlhöfundinn“ innan sögunnar og sköpun söguhetjunnar, kvenpersónu; ferli sem um margt einkennist af sambandi ástar og eyðileggingar og verður
enn flóknara en ella þegar lesandinn er dreginn inn í það ásamt raunhöfundinum, Clarice Lispector.

Lykilorð: Clarice Lispector, Hour of the Star, brasilískar bókmenntir, sjálfsögur, bókmenntagreining

Niðurhal

Útgefið

2022-12-28

Tölublað

Kafli

Greinar