Kirkjuleg lýðræðishreyfing

Lútherskir fríkirkjusöfnuðir á Íslandi fyrir 1915. Fyrsta grein

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

Íslensk kirkjusaga, trúfrelsi, lútherskir fríkirkjusöfnuðir, kirkjuleg lýðræðishreyfing

Útdráttur

Með stjórnarskránni frá 1874 var landsmönnum tryggður réttur til að stofna og starfrækja trúfélög utan þjóðkirkjunnar. Með stjórnarskrárbreytingum árið 1915 var einstaklingum svo veitt víðtækt trúarlegt frelsi. Þar með lauk fyrsta þróunarskeiði trúfrelsis í landinu.
Á tímabilinu notaði fólk sér hið trúarlega félagafrelsi með ýmsu móti. Hér hófu störf ýmis trúfélög og kirkjudeildir á öðrum grunni en hinum evanglísk-lútherska. Þá urðu einnig til níu lútherskir fríkirkjusöfnuðir víða um land. Flestir voru þeir stofnaðir til að mæta stað-bundnum vanda í starfi þjóðkirkjunnar í héraði, t.d. óánægju sem upp kom við skipun presta eða sameiningu sókna og/eða prestakalla, staðsetningu sóknarkirkju eða aðgengi að presti. Í sumum tilvikum leystust þau ágreiningsmál sem urðu til þess að fríkirkjusöfnuður var stofnaður og lögðust þeir þá fljótt af. Tveir þeirra starfa þó enn af krafti: í Reykjavík og Hafnarfirði. Þar komu stéttapólitísk sjónarmið við sögu, auk hinna kirkjulegu baráttumála.
Söfnuðirnir mynduðu engin samtök sín á milli enda störfuðu þeir ekki allir samtímis og langt var á milli þeirra flestra í landfræðilegum skilningi. Þó virðist ljóst að yngri söfnuðir sóttu fyrirmyndir til hinna eldri hvað varðar grundvallarsamþykktir (lög) og stjórnkerfi. Þá þjónuðu sömu prestar/forstöðumenn í nokkrum tilvikum tveimur nálægum söfnuðum samtímis. Milli safnaðanna virðist því hafa komið fram nægileg tengsl og skyldleiki til að líta megi á þá sem birtingarmyndir óformlegrar hreyfingar í kirkjumálum hér á landi.
Söfnuðirnir kenndu sig allir við evangelísk-lútherska kristni, störfuðu á svipuðum játninga-grunni og þjóðkirkjan og viku flestir ekki frá helgisiðum hennar í neinum grundvallar-atriðum. Hjá hinu almenna safnaðarfólki virðist heldur ekki hafa gætt verulegs áhuga fyrir breytingum á þessum sviðum né fyrir að aðskilja ríki og kirkju.
Hér er litið svo á að í starfi safnaðanna hafi einkum gætt viðleitni til að auka svigrúm fólks til að taka frumkvæði í stjórn eigin safnaðarmála og laga starf kirkjunnar að staðbundnum aðstæðum umfram það sem gildandi lög og vilji stjórnvalda stóð til. Því má líta svo á að söfnuðirnir séu fyrst og fremst merki um kirkjulega lýðræðishreyfingu.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor emerítus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. 

Útgefið

2023-10-13