„Að kveikja neistann skiptir sköpum“ Viðhorf foreldra til starfshátta í grunnskóla sem leitast við að stuðla að nemendasjálfræði

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.18

Lykilorð:

viðhorf foreldra, áhugadrifið nám, mannrækt, stuðningur við sjálfræði, sjálfsákvörðunarkenningar

Útdráttur

Viðfangsefni greinarinnar er að varpa ljósi á viðhorf foreldra til starfshátta í grunnskóla sem hefur áhugadrifið nám að yfirlýstu markmiði þar sem leitast er við að stuðla að sjálfsábyrgð og sjálfræði nemenda. Fyrri rannsóknir sýna fram á aukinn áhuga og sjálfstjórn nemenda ef þörf þeirra fyrir sjálfræði er mætt. Jafnframt sýna rannsóknir að hlutdeild foreldra í námi barna skiptir máli varðandi námsgengi þeirra og velfarnað. Þegar kemur að stefnumótun menntamála og skólaþróun á Íslandi er mikilvægt að skoða starfshætti grunnskóla með gleraugum flestra sem að þeim koma. Því er áhugavert að kanna viðhorf foreldra til námsskipulags og starfshátta skóla sem hefur áðurnefnd markmið að leiðarljósi. Um er að ræða tilviksrannsókn sem gerð var meðal foreldra barna í 8.–10. bekk í grunnskólanum NÚ vorið 2019. Fyrirbærafræðilegri nálgun var beitt þar sem tekin voru sjö einstaklingsviðtöl. Til undirbúnings þeim var farið í þrjár óformlegar vettvangsheimsóknir. Niðurstöður sýndu að foreldrar voru almennt ánægðir með starfshætti skólans, einkum áherslu á mannrækt sem hefur skilað sér í persónulegum vexti nemenda, sem og þrautseigju, ábyrgð og almennri gleði. Foreldrar töluðu sérstaklega um að nemendur væru minntir á að eigið hugarfar og eljusemi skipti sköpum varðandi árangur, og um leið upplifðu þeir að raddir nemenda skiptu máli. Traust og virðing í öllum samskiptum var áberandi í viðtölunum og nefndu foreldrar ánægju nemenda sem fylgdi valfrelsi og sveigjanleika í náminu. Áhugi kviknaði hjá sumum á meðan aðrir fundu aukinn tilgang. Minni kennarastýring en nemendur áttu að venjast í fyrri skólum samfara auknu sjálfræði og sjálfsábyrgð í vinnubrögðum reyndist nemendum þó áskorun í upphafi. Loks þóttu áherslur skólans á tækniþróun nokkuð krefjandi bæði fyrir nemendur og foreldra, sem flækti eftirfylgni með náminu. Foreldrar eru hagsmunaaðilar í skólasamfélaginu og því skiptir máli að fá fram viðhorf þeirra til skólastarfs, einkum hvort og með hvaða hætti þeir telja starfshætti skóla hafa raunveruleg áhrif á börn sín.

Um höfund (biographies)

Soffía H. Weisshappel

Soffía H. Weisshappel (shw7@hi.is) er umsjónarkennari við Snælandsskóla í Kópavogi og sinnir jafnframt leiðsögn kennaranema við sama skóla. Hún lauk B.Ed.-prófi í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005, MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2021, auk þess að stunda viðbótarnám í menntastjórnun og matsfræði á meistarastigi. Áhugasvið Soffíu er að búa grunnskólanemendum framúrskarandi skólaumhverfi sem stuðlar að hámarksárangri og vellíðan nemenda.

Ingibjörg V. Kaldalóns

Ingibjörg V. Kaldalóns (ingakald@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í stjórnmála- og félagsfræði frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1993, MA-gráðu í félagsfræði frá sömu deild 1996 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2015. Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg einkum beint sjónum að starfsháttum í grunnskólum, þátttöku, sjálfræði og þrautseigju nemenda í skólastarfi sem og velfarnaði nemenda og kennara.

Ingvar Sigurgeirsson

Ingvar Sigurgeirsson (ingvar@hi.is) er fv. prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1985, meistaragráðu frá Háskólanum í Sussex 1986 og doktorsgráðu frá sama skóla 1992. Rannsóknir Ingvars hafa einkum snúist um kennsluhætti, kennsluaðferðir, námsmat, heimanám og skólaþróun og nú á síðustu árum um teymiskennslu.

Niðurhal

Útgefið

2021-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

<< < 1 2