Farsæld sem markmið menntunar

Ákall um aðgerðir

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/tuuom.2023.32.5

Útdráttur

Greinin fjallar um tengsl farsældar og menntunar á Íslandi með hliðsjón af hræringum á sviði alþjóðlegrar menntastefnu og nýjustu rannsóknum á sviðinu. Sérstaklega er fjallað um svokallaða farsældarkenningu í menntun sem hverfist meðal annars um heildstæða sýn á þroska, nám og hæfni nemenda og hvernig íslenska menntasamfélagið þarf að bregðast við á næstu misserum og árum. Greint er á milli ólíkra hugmynda um farsæld sem menntunarmarkmið (og gagnrýni á þær) er endurspegla ólíka fræðilega og faglega sýn. Höfundar sýna fram á ákveðna togstreitu í opinberri umræðu og skort á skilningi á því hvernig nám fer fram. Alþjóðastofnanir, svo sem OECD og UNESCO, leggja sífellt meiri áherslu á heildstæða hæfni og farsæld sem markmið menntunar. Engu að síður snýst opinber umræða gjarnan um bóklegan námsárangur, svo sem PISA, sem mótar einatt ákvarðanir og viðbrögð stjórnvalda. Höfundar færa rök fyrir mikilvægi samstarfs og samþættingar milli ólíkra sviða í menntakerfinu, annars vegar skólastarfs og hins vegar skipulagðs frístundastarfs þar sem unnið er með óformlegan og hálf-formlegan (e. informal og non-formal) lærdóm. Rýna þarf í hvernig þróa megi árangursríkt skóla- og frístundastarf sem skipulagt er með farsæld sem markmið menntunar að leiðarljósi. Meginniðurstaðan er sú að móta þurfi sameiginlega sýn á það hvað farsæld felur í sér, og skýra betur hvaða hlutverki ólíkar stofnanir og faghópar gegna í að styðja farsæld nemenda (ungmenna). Það er samfélagslegt ákall og skýr stefna stjórnvalda að horfa skuli til farsældar sem markmiðs menntunar. Sýnt er fram á að aukin þekking og stuðningur við heildstæða menntun styður slík áform, en kallað er eftir dýpri hugtakaskilningi og aðgerðum menntasamfélags til að ljá fallegum orðum á blaði hagnýta jarðbindingu

Um höfund (biographies)

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í heimspeki 1997, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og PhD-gráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Í rannsóknum sínum hefur Kolbrún beint sjónum að ferðalagi ungmenna milli ólíkra námsumhverfa, formlegra og óformlegra, og lærdómi þeirra innan og utan skóla. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars fagþróun frístundaheimila, formleg og óformleg menntun, menntastefna og fagmennska og samstarf í skóla- og frístundastarfi. Hún hefur birt fjölda fræðigreina og bókarkafla um þau viðfangsefni, ásamt því að vera stjórnvöldum og sveitarfélögum til ráðgjafar um menntamál. Kolbrún situr í ýmsum nefndum og stjórnum, meðal annars leiðir hún stjórn Nýsköpunarstofu menntunar og situr í stjórn Bataskólans og stjórn Endurmenntunar HÍ. Á meðal núverandi rannsóknarverkefna hennar eru farsæld og menntun, tilgangur og merking í lífi ungmenna og innleiðing gæðaviðmiða í starf frístundaheimila.

Kristján Kristjánsson, University of Birmingham

Kristján Kristjánsson (k.kristjansson@bham.ac.uk) er prófessor við Jubilee-stofnunina um mannkosta- og dygðamenntun við Háskólann í Birmingham. Kristján lauk B.A.-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1983, M.Phil.-prófi í heimspeki við University of St. Andrews í Skotlandi árið 1988 og doktorsprófi við sama skóla árið 1990. Hann hefur nýverið tekið upp hlutastörf sem prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Boston College, og sem ráðgjafi hjá OECD. Rannsóknir hans hverfast um mannkosti og dygðir á mörkum siðfræðilegrar heimspeki, siðfræðilegrar sálfræði og siðfræði menntunar. Hann hefur birt ýmsar bækur um þau viðfangsefni, þær nýjustu Phronesis: Retrieving Practical Wisdom (meðhöfundur Blaine Fowers; O.U.P., 2024), Friendship for Virtue (O.U.P., 2022) og Flourishing as the Aim of Education (Routledge, 2020). Á meðal fyrri bóka hans eru Aristotelian Character Education, (Routledge, 2015) sem hlaut verðlaun sem menntafræðibók ársins í Bretlandi árið 2015, og hefur síðan þá verið þýdd yfir á japönsku, og bókin Virtues and Vices in Positive Psychology (C.U.P., 2013), sem hefur verið þýdd yfir á kóresku. Kristján er ritstjóri tímaritsins Journal of Moral Education

Niðurhal

Útgefið

2024-01-08