Um tímaritið

Timarit um uppeldi og menntun er fræðilegt tímarit á sviði menntavísinda, gefið út í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Félags um menntarannsóknir. Tímaritið varð til árið 2016 með samruna tveggja eldri tímarita: Uppeldi og menntun og Tímarit um menntarannsóknir. Ritstjórar eru tveir, annar tilnefndur af Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hinn af Hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri Í ráðgefandi ritnefnd eru tveir fulltrúar Menntavísindasviðs HÍ, tveir fulltrúar Hug- og félagsvísindasviðs HA og tveir fulltrúar tilnefndir af Félagi um menntarannsóknir. Frumútgáfa tímaritsins er á vefslóðinni: https://ojs.hi.is/index.php/tuuom

Megintilgangur tímaritsins er að auka þekkingu og faglega umræðu um uppeldis og menntamál á Íslandi með því að birta fræðilegt efni í formi ritrýndra greina, ritdóma og ítardóma. Skilyrði fyrir birtingu ritrýndra fræðigreina er að þær feli í sér nýnæmi og hafi ekki birst á öðrum vettvangi. Greinar geta verið á íslensku eða ensku en greinar á ensku skulu fela í sér alþjóðlegt nýnæmi.

Tímaritið kemur að jafnaði út tvisvar á ári, hausthefti og vorhefti. Prentuð hefti eru send áskrifendum í pósti. Tekið er á móti greinum allt árið og tímaritið birtir greinar í þeirri röð sem þær eru tilbúnar til birtingar. 

Það kostar ekkert að senda inn grein í fræðiritið og enginn umsýslukostnaður er innheimtur vegna ritrýniferlis eða útgáfu. Greinar sem birtast í tímaritinu birtast einnig í Opnum vísindum

Ritrýniferli 

Tímarit um uppeldi og menntun er ritrýnt tímarit (e. double blind review) sem felur í sér faglega umsögn tveggja til þriggja sérfróðra umsagnaraðila (ritrýna) á því fagsviði sem greinin fjallar um. Eingöngu hæfir aðilar eru valdir til verksins og þess er gætt að að lágmarki einn ritrýnanna hafi doktorspróf við hæfi. Ritrýnin felur í sér nafnleynd (e. Double blind review), það er, ritrýnar fá engar upplýsingar um greinarhöfunda og greinarhöfundar fá engar upplýsingar um ritrýna.

Ritstjórar taka ákvörðun um hvort handrit greinar er sent í ritrýni og sömuleiðis um hvort grein fæst birt í ritinu að lokinni ritrýni. Ráðgefandi ritnefnd er þeim til ráðgjafar, sé þess þörf. Við ákvörðun um birtingu greinar er horft til þess að grein sé fræðileg eða rannsóknartengd, hvort hún eigi erindi til þeirra sem sinna uppeldis- og menntamálum og síðast en ekki síst er þess gætt að grein falli að og styðji við heildarsvip tímaritsins hverju sinni. Meginreglan er sú að innsendar greinar hafi ekki birst annars staðar.

Reglur um opinn aðgang

Veftímaritið er í opnum aðgangi samkvæmt leyfi CC  by 4.0 og er efni þess til frjálsrar dreifingar án endurgjalds fyrir notendur og stofnanir. Notendum og stofnunum er frjálst að deila, afrita og dreifa efninu á hvaða miðli eða sniði sem er í hvaða tilgangi sem er, jafnvel í viðskiptalegum tilgangi. Notendum er heimilt að lesa, hlaða upp, afrita, dreifa, prenta, leita í og tengja við fullan texta greina án fyrirfram fenginnar heimildar útgefenda eða höfunda svo lengi sem vísað er til heimildar. Höfundar halda dreifingarétti á greinum sínum.

Tímaritið er skráð í Directory of Open Access Journals (DOAJ) sem er gagnagrunnur yfir tímarit sem í opnum aðgangi.

Siðareglur

Siðareglur tímaritsins byggja á leiðbeiningum um siðareglur í tímaritsúgáfu hjá COPE (Committee on Publication Ethics). Einnig er stuðst við siðareglur birtinga hjá Elsevier útgáfunni og hjá tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Allir sem koma að útgáfuferli tímaritsins, þar á meðal ritstjórar, höfundar, ritrýnar og útgefendur, verða að fylgja þessum leiðbeiningum.

Ábyrgð höfunda

  • Uppruni og ritstuldur: Höfundar skila inn eigin óútgefnum verkum. Ef höfundar nýta aðstoð  gervigreindartóla við ritun greina þurfa upplýsingar um þau að koma fram. Endanleg ábyrgð á grein liggur ávallt hjá höfundum. 
  • Höfundar greina : Aðeins aðilar sem lagt hafa verulega af mörkum til greinar ættu að vera skráðir sem meðhöfundar. Breytingar á höfundarrétti eftir skil krefjast skriflegs samþykkis allra höfunda.
  • Gögn: Höfundar bera ábyrgð á nákvæmni og áreiðanleika gagna.
  • Hagsmunaárekstrar: Höfundar upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra sem kunna að liggja að baki rannsóknum. Fjármögnun styrktaraðila kemur fram þar sem við á.
  • Persónuvernd: Höfundar bera ábyrgð á því að farið sé eftir íslenskum persónuverndarlögum til að mynda í tengslum við meðferð og öflun gagna.
  • Leiðréttingar: Ef höfundar verða varir við verulegar villur í útgefinni grein þurfa þeir að tilkynna um það sem fyrst. Fylgt er leiðbeiningum frá COPE varðandi leiðréttingar á efni.

Ábyrgð ritstjóra

  • Sanngjarnt rýningarferli: Ritstjórar taka ákvörðun um ritrýni út frá sérfræðiþekkingu ritrýna og án mismununar. 
  • Trúnaður: Ritstjórar halda trúnaði við höfunda og ritrýna.
  • Hagsmunaárekstrar: Ritstjórar upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra við ritstjórn greina. 
  • Sjálfstæði ritstjórnar: Ákvarðanir ritstjórnar eru teknar óháð hagsmunum stofnana, stjórnmála eða viðskipta.

Ábyrgð ritrýna

  • Trúnaður: Ritrýnar eru bundnir trúnaði og handrit í ritrýniferli er trúnaðarmál.
  • Hlutlægni: Yfirferð skal fara fram á hlutlausan hátt með uppbyggilegum athugasemdum.
  • Hagsmunaárekstrar: Ritrýnum ber að upplýsa ritstjóra ef um hagsmunaárekstra er að ræða.
  • Tímasetningar: Yfirferð efnis skal vera lokið innan tilskilins tíma. Tilkynna skal tafarlaust um tafir. 

Ábyrgð útgefanda

  • Tryggir sjálfstæði ritstjórnar, styður við ritstjórn og tryggir vönduð vinnubrögð.

  • Kannar ásakanir um misferli samkvæmt leiðbeiningum COPE.

  • Tryggir langtímavarðveislu og aðgengi að efni.

  • Veitir ráðgjöf varðandi fræðilega útgáfu. 

Brot á siðareglum

  • Misferli (t.d. ritstuldur, fölsun gagna, ágreiningur um höfundarétt) verður kannað í samræmi við viðmið COPE. 

Tímarit um uppeldi og menntun stuðlar að fjölbreytileika og kemur í veg fyrir mismunun á öllum stigum útgáfunnar.

Siðareglur útgáfunnar verða endurskoðaðar árlega.