Fullgildi í leikskóla: Sjónarmið barna og starfsfólks

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/tuuom.2020.29.6

Lykilorð:

leikskóli, fjölmenning, bernskurannsóknir, fullgildi

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar er að bæta við þekkingu á sýn leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á þátttöku sína og vellíðan í leikskólanum. Einnig voru könnuð viðbrögð starfsfólks leikskólans við sjónarmiðum barnanna. Hugtakið fullgildi (e. belonging) var notað til að varpa ljósi á félagsleg samskipti og þátttöku barnanna í samfélagi leikskólans. Rannsóknin var gerð á leikskóladeild þar sem dvöldu saman 19 börn og fjórir starfsmenn. Níu börn kusu að taka þátt eftir að hafa fengið leyfi frá foreldrum og útskýringar á því hvað þátttakan fæli í sér. Einnig voru könnuð viðbrögð starfsfólks leikskólans við sjónarmiðum barnanna. Börnin tóku myndir á spjaldtölvur og voru myndirnar notaðar sem kveikja að samræðu um fullgildi þeirra í leikskólanum. Niðurstöðurnar benda til þess að í hugum barnanna snúist fullgildi aðallega um vináttutengsl þeirra við önnur börn í leikskólanum. Börnin léku sér frekar við börn með svipaðan tungumála- og menningarbakgrunn og þau sjálf. Börn með annan bakgrunn en íslenskan voru frekar útilokuð frá leik en börn með íslenskan bakgrunn. Börnin, sem tóku þátt, voru sjálfstæð og sjálfbjarga í daglegu starfi leikskólans og leituðu ekki til starfsfólksins eftir stuðningi þegar eitthvað bjátaði á, heldur drógu sig frekar í hlé. Starfsfólkið ígrundaði starfshætti sína út frá sjónarmiðum barnanna og hafði ýmsar hugmyndir um fullgildi þeirra. Þær hugmyndir virtust þó ekki endurspeglast nema að litlu leyti í starfsháttum þess.

Um höfund (biographies)

Jóhanna Einarsdóttir

Jóhanna Einarsdóttir (joein@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum við Háskólann í Illinois árið 2000. Jóhanna er heiðursdoktor við Háskólann í Oulu í Finnlandi og hún hlaut viðurkenningu frá Háskólanum í Illinois fyrir framlag sitt til rannsókna á menntun ungra barna. Sérsvið hennar eru rannsóknir með börnum, samfella í námi barna og starfendarannsóknir. Hún er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum bæði sem rannsakandi og ráðgjafi og hefur ritað fjölda fræðigreina í samstarfi við erlenda kollega. Hún situr í stjórn European Early Childhood Education Research Association.

Sara M. Ólafsdóttir

Sara Margrét Ólafsdóttir (saraola@hi.is) er lektor í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2019. Rannsóknir hennar hafa aðallega beinst að sjónarmiðum barna og þær tengjast meðal annars leik barna, vellíðan þeirra, fullgildi og þeim þáttaskilum þegar þau fara úr leikskóla í grunnskóla. Sara hefur tekið þátt í rannsóknasamstarfi, bæði innlendu og erlendu.

Niðurhal

Útgefið

2020-12-16

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar