Ævintýraeyjurnar Japan og Ísland: Um Japansdvöl Nonna, 1937–1938

Höfundar

  • Kristín Ingvarsdóttir

Lykilorð:

Jón Sveinsson, Nonni, Japan, viðtökur, fjölmiðlaumfjöllun, ferðasögur, trúarbrögð

Útdráttur

Seint á rithöfundarferli Jóns Sveinssonar, Nonna, rættist draumur hans um að ferðast til Japans og hvergi fundust Jóni viðtökurnar betri en einmitt þar. Jón var þó þekktur víða um lönd og einn víðförlasti Íslendingur síns tíma, enda höfðu barnabækur hans verið þýddar á um 30 tungumál. Jón kom til Japans vorið 1937 og dvaldist í eitt ár við hinn þekkta Sophia-háskóla í Tókýó, sem rekinn var af
trúbræðrum hans í Jesúítareglunni. Markmiðið með þessari grein er að varpa ljósi á Japansdvöl Jóns á grundvelli rannsóknar á japönskum heimildum frá þeim tíma sem Jón dvaldist í landinu. Leitast verður við að svara hvar og með hvaða hætti fjallað var um rithöfundinn Jón og verk hans í japönskum dagblöðum og tímaritum. Dvöl Jóns í Japan vakti mikla athygli og umfjöllun því bæði tíð og umfangsmikil. Til grundvallar umfjölluninni liggja heimildir sem greinarhöfundur
hefur mestmegnis aflað í japönskum skjalasöfnum og gagnagrunnum. Með því að rannsaka þessar heimildir bætist nýtt sjónarhorn við fyrri rannsóknir á Japansvöl Jóns. Jafnframt verður lögð áhersla á að varpa ljósi á þær þjóðfélags- og trúarhræringar sem ruddu sér til rúms í Japan á fyrri hluta síðustu aldar og hafa vafalítið haft áhrif á þær viðtökur sem höfundurinn og verk hans hlutu þar í
landi. Vikið verður að hlutverki og stöðu Sophia-háskólans í japönsku samfélagi, sem og flókna stöðu kristinnar kirkju og jesúíta í Japan á áratugunum fyrir seinni heimsstyrjöld, en þau markast af uppgangi heimsvaldastefnu, þjóðernishyggju, ríkisrekinni trúarstefnu og stríðsrekstri á meginlandi Asíu.
Lykilorð: Jón Sveinsson – Nonni, Japan, viðtökur (fjölmiðlaumfjöllun),
ferðasögur, trúarbrögð

Niðurhal

Útgefið

2021-05-05

Tölublað

Kafli

Greinar