Faglegt lærdómssamfélag og starfsánægja í leikskólum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/tuuom.2021.30.4

Lykilorð:

leikskóli, leikskólakennari, leiðbeinandi, faglegt lærdómssamfélag, starfsánægja

Útdráttur

Áhersla hefur verið lögð á það í aðalnámskrá og víðar að leikskólar starfi eftir hugmyndum um lærdómssamfélag. Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á stöðu faglegs lærdómssamfélags innan leikskóla og tengsl þess við menntunarlega stöðu og starfsánægju starfsfólks. Spurningakönnun var send til starfsfólks, annars en stjórnenda, á fimm leikskólum, byggð á mælitæki sem mælir fimm víddir faglegs lærdómssamfélags og aðlagað var að íslensku leikskólastarfi. Niðurstöður benda til þess að starfsfólk upplifi almennt einkenni faglegs lærdómssamfélags en mismikil milli skóla. Leikskólakennarar upplifa einkennin fremur en annað starfsfólk og mun fremur en leiðbeinendur. Draga má þá ályktun að efling faglegs lærdómssamfélags, sem styður frumkvæði og þekkingarmiðlun til starfsfólks og jafnari þátttöku í ákvarðanatöku, sé leið til að efla starfsfánægju og minnka starfsmannaveltu. Helsta hindrunin snýr að tíma til samvinnu um faglegt starf og björgum leikskólans. Svo virðist sem huga þurfi betur að því að byggja upp menningu sem styður grunnvíddir faglegs lærdómssamfélags þar sem allt starfsfólk, þar með taldir leiðbeinendur, fær í auknum mæli notið sín í starfi deildanna.

Um höfund (biographies)

Sveinbjörg Björnsdóttir

Sveinbjörg Björnsdóttir (sveinbjorgb@kopavogur.is) er leikskólakennari og starfar sem deildarstjóri og leikskólakennari við leikskólann Marbakka. Hún hefur leyfisbréf til kennslu á leik-og grunnskólastigi og reynslu sem kennari í grunn- og leikskóla. Hún útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Háskóla Íslands 2005 og með M.A.-gráðu frá Háskólanum á Akureyri 2019 af áherslusviðinu stjórnun og forysta í lærdómssamfélagi.

Sigríður Margrét Sigurðardóttir

Sigríður Margrét Sigurðardóttir (sigridurs@unak.is) er lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún útskrifaðist í grunnskólakennarafræðum frá Det Nödvendige Seminarium í Danmörku 1998. Hún hefur leyfisbréf til kennslu á leik- og grunnskólastigi og reynslu úr grunnskóla sem kennari og skólastjóri. Hún útskrifaðist með M.Ed.-gráðu í menntunarfræði með áherslu á stjórnun skólastofnana frá Háskólanum á Akureyri 2010. Helstu rannsóknarviðfangsefni eru á sviði stefnumótunar, forystu, skólastjórnunar, skólaþróunar og starfsþróunar.

Anna Margrét Jóhannesdóttir

Anna Margrét Jóhannesdóttir (amjjoh@gmail.com) starfar sem fagstjóri innri endurskoðunar og staðgengill innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Hún lauk BA í stjórnmálafræði 1990 og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1991. Lauk meistaragráðu í stjórnsýslufræðum (MPA) frá Pennsylvania State University 1993. Lauk faggildingu (CIA) sem innri endurskoðandi 2007 og áhættustýringu (CRMA) 2013 frá Alþjóðasamtökum innri endurskoðenda. Birti greinar í veftímariti Stofnunar stjórnsýslufræða, Stjórnmál og stjórnsýsla, 2014 og 2018, um innri endurskoðun.

Niðurhal

Útgefið

2021-07-02

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)