Íslenskur vinnumarkaður – erlent starfsfólk
Ritstýrt hefti Íslenska þjóðfélagsins
Útdráttur
Miklar breytingar hafa orðið á síðustu áratugum á alþjóðlegum vinnumarkaði með hraðari og auðveldari samgöngum, opnum mörkuðum og afnámi hafta. Hreyfanleiki fólks hefur aukist og þar hafa vinnutengdir flutningar af margvíslegum toga verið mikilvægir (IMR, 2017). Alþjóðlegir samningar eins og um sameiginlegan vinnumarkað innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagsvæðisins hafa þar haft mikil áhrif. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum. Fólki, sem hefur komið til starfa á Íslandi til lengri eða skemmri tíma, hefur fjölgað mikið og sérstaklega þeim sem koma frá Evrópska efnahagssvæðinu (Kristjánsdóttir og Christiansen, 2015; Unnur Dís Skaptadóttir, 2010; Wojtynska, 2011). Aldrei áður hefur eins margt erlent fólk starfað á íslenskum vinnumarkaði og nú; stór hluti þeirra í láglaunastörfum. Árið 2017 voru erlendir ríkisborgarar 12% vinnuaflsins (Vinnumálastofnun, 2018).
Viðfangsefni þessa sérheftis eru, eins og titill þess endurspeglar, vinnutengdir flutningar og íslenskur vinnumarkaður. Þessir flutningar eru skoðaðir út frá breiðu þverfræðilegu sjónarhorni þar sem dregin er athygli að mikilvægi þeirra í mótun íslensks samfélags annars vegar og að reynslu fólks af flutningum hins vegar. Hvaða áhrif hefur íslenskur vinnumarkaður og viðhorf haft á stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði? Hvernig hafa alþjóðleg lög og hugmyndastraumar um stöðu og hlutverk fólks af erlendum uppruna mótað þátttöku, möguleika og reynslu þeirra hér á landi? Hvaða áhrif hafa sviptingar á vinnumarkaði – mikið atvinnuframboð eða lítið – haft á umræðu í samfélaginu eða á réttindi erlends starfsfólks? Hvað þýðir sveigjanlegur vinnumarkaður fyrir innflytjendur og með hvaða hætti hafa alþjóðlegir straumar, sem leggja áherslu á enn opnari vinnumarkað, mótað íslenskt samfélag? Hvaða hópar eru útilokaðir frá íslenskum vinnumarkaði og á hvaða hátt? Hvernig er menntun og fyrri starfsreynsla erlends starfsfólks metin á íslenskum vinnumarkaði? Í þessum inngangi eru viðfangsefni ólíkra greina sérheftisins sett í fræðilegt og sögulegt samhengi vinnutengdra flutninga. Við byrjum á fræðilegri umfjöllun þar sem við undirstrikum mikilvægi þess að skoða alþjóðlegt samhengi þessara flutninga. Spurningar, sem vakna í íslensku samhengi, eru oft einnig mikilvægar alþjóðlega. Við fjöllum síðan um sögulegt samhengi vinnutengdra flutninga til Íslands og förum að lokum stuttlega yfir efni greinanna í heftinu.
Niðurhal
Útgefið
Hvernig skal vitna í
Tölublað
Kafli
Leyfi
Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).