Frá ritstjórum: Menning og hreyfanleiki
Útdráttur
Viðbrögð stjórnvalda um heim allan til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa haft víðtæk áhrif og þau hafa meðal annars fært okkur heim sanninn um hversu hreyfanleiki fólks frá einum stað til annars er snar þáttur í menningu samtímans. Víða um lönd voru settar hömlur á ferðir fólks, landsvæði, bæir og borgir lokaðar fyrir umferð til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, og jafnvel komið á útgöngubanni. Flughafnir sem áður voru iðandi af mannlífi alla daga ársins tæmdust nær fyrirvaralaust og eins og hendi væri veifað hafa þessar umferðarmiðstöðvar samtímans orðið að draugabæjum. Sú hversdagslega athöfn að bregða sér bæjarleið landa og heimshluta á milli í ýmsum erindagjörðum var skyndilega miklum takmörkum háð. Samneyti og öll hreyfing þar sem annað fólk var á ferli varð mögulega lífhættuleg og með tveggja metra reglunni fékk nálægð við annað fólk nýja merkingu. Hreyfanleiki fólks, sem er svo ríkur þáttur í því hvernig nútíminn er skilgreindur, var skyndilega skertur með nýjum hætti. Skorður við tilfærslu fólks frá einum stað til annars hafa raunar um langt skeið verið einkenni nútímans, eins og hin hliðin á hreyfanleikanum. Stór hluti mannkyns hefur átt harla litla aðild að þessari menningu hreyfanleikans. Þótt ýmsir sæti færis eða hrekist til að flýja heimahagana eru margir eftir sem áður fjötraðir við átthagana af fátækt, múrum og mærum. Það sem er nýtt á vormánuðum 2020 er að með viðbrögðum við veirunni hefur hinn betur stæði hluti heimsbyggðarinnar líka verið kyrrsettur með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heilu atvinnugreinarnar og efnahagslíf ríkja.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi

Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).