„Sjálfseyðingarhvötin er svo sterk“: Reynsla karlkyns þolenda af sjálfsvígshugsunum í kjölfar kynferðisofbeldis
Lykilorð:
Kynferðisofbeldi, Sjálfsvígshugsanir, Sjálfseyðingarhvöt, Karlmennskuímyndir, FyrirbærafræðiÚtdráttur
Sjálfsvígshugsanir eru algengar meðal karlkyns þolenda kynferðisofbeldis en fáar íslenskar rannsóknir hafa einblínt sérstaklega á þennan þátt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða reynslu karlkyns þolenda af sjálfsvígshugsunum í kjölfar kynferðisofbeldis og áhrif samfélagsins og fagfólks á reynslu þeirra. Rannsóknaraðferðin var fyrirbærafræðileg og voru tekin 17 djúpviðtöl við sjö karlkyns þolendur. Niðurstöðurnar sýna að þátttakendum fannst sjálfsvígshugsanir í kjölfar kynferðisofbeldis byggjast á sterkri sjálfseyðingarhvöt sem fæli í sér nánast óbærilega þjáningu en væri þó ótjáð. Sjálfsvígshugsanirnar hverfðust um að finna hugarró og sleppa við stöðugar og ágengar hugsanir um ofbeldið. Sjálfseyðingarhvötin birtist meðal annars í áhættuhegðun og öðru skeytingarleysi um eigin heilsu og líf. Hefðbundnar karlmennskuímyndir höfðu neikvæð áhrif á alla þátttakendur, svo sem að þeir mættu ekki sýna tilfinningar af því að þeir væru karlmenn og ættu að harka tilfinningalegan sársauka af sér, en slíkt fól í sér tilfinningalega þöggun. Brotin sjálfsmynd, skömm, sektarkennd, neikvæðar hugsanir og einmanaleiki einkenndu líf þátttakenda. Að segja frá ofbeldinu gaf þeim nýtt upphaf. Þeir upplifðu þó oft þekkingar- og stuðningsleysi hjá fagfólki og fannst að spyrja þyrfti markvissar um áfallasögu í opinberri þjónustu. Mikilvægt er að fagfólk hafi þekkingu á kynferðisofbeldi gagnvart körlum og kunni að veita þeim sem glíma við sjálfsvígshugsanir áfallamiðaða þjónustu.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi

Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).