Starfsævinni að ljúka en eldmóðurinn sem aldrei fyrr

Hlín Helga Pálsdóttir grunnskólakennari

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.3

Lykilorð:

náttúrufræðikennsla, teymiskennsla, útikennsla, virkt nám, kennsla yngri barna

Útdráttur

Margir yngri barna kennarar hafa verið öflugir í kennslu og leitt breytingar á kennsluháttum. Einn þeirra er Hlín Helga Pálsdóttir sem kenndi bæði við Kennaraháskóla Íslands og Æfingaskólann, síðar Háteigsskóla. Í greininni verður greint frá rannsókn á starfi hennar síðasta árið sem hún starfaði sem kennari. Frásagnarrýni er notuð til að skrá niðurstöður rannsóknarinnar. Greinin er byggð á gögnum sem aflað var með viðtölum við Hlín, vettvangsathugunum og skrifum hennar um eigið nám og starf. Hlín lagði sérstaka áherslu á að þróa vinnubrögð í lestrarkennslu, útikennslu og teymiskennslu og notaði samstund og valsvæði sem leiðir til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Náttúrufræðikennsla var henni sérstaklega hugleikin og þar lagði hún áherslu á virkni og þátttöku nemenda í eigin námi. Í greininni kemur fram hvernig Hlín hefur nýtt það sem hún kynntist í námi sínu við að þróa kennsluna og jafnframt byggt á reynslu og samstarfi við nemendur og samkennara. Frásagnir úr kennslustundum Hlínar sýna vel hvernig hún náði að skapa aðstæður fyrir börnin sem hún kenndi til að rannsaka umhverfi sitt, setja fram tilgátur og gera tilraunir til að kanna réttmæti þeirra. Þá hvatti hún þau til að ræða niðurstöður sínar og ígrunda það sem þau hefðu lært.

Um höfund (biography)

Gunnhildur Óskarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Gunnhildur Óskarsdóttir (gunn@hi.is) var prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi við Kennaraháskóla Íslands árið 1982, M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi árið 1989 og doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 2006. Hún kenndi í Hvassaleitisskóla í þrjú ár en síðan í Æfingaskóla Kennaraháskólans, síðar Háteigsskóla, í níu ár. Hún varð æfingakennari við Kennaraháskólann 1989, lektor við Kennaraháskólann, síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands, árið 1998, dósent árið 2006 og prófessor 2022.

Rannsóknir hennar beindust einkum að kennslu ungra barna í grunnskóla, sér í lagi náttúrufræðikennslu. Áhugi hennar beindist einnig að fjölmenningarlegum kennsluháttum og hvernig hlúð er að nemendum, með annað móðurmál en íslensku, í grunnskólum. Gunnhildur lést, eftir 25 ára langa glímu við krabbamein, 17. mars 2023.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31