Að varðveita heiminn: Hannah Arendt og menntakrísan

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.92

Lykilorð:

hnattræn borgaravitund, Hannah Arendt, menntastefna, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Útdráttur

Í þessari grein kem ég til með að spreyta mig á spurningu sem Jón Torfi Jónasson hefur lagt sérstaka áherslu á í starfi sínu og framlagi til menntaumræðu og rannsókna. Spurningin snýr að hlutverki menntunar og skólastarfs í síbreytilegum heimi. Til þess styðst ég að mestu við greinina „The Crisis in Education“ sem fjallar um stöðu menntamála í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar en greinina skrifaði pólitíski hugsuðurinn Hannah Arendt árið 1954. Með því að leita í smiðju Arendt tek ég einnig alvarlega það sem Jón Torfi sagði nýlega (og hefur rætt áður) að á sama tíma og mikilvægt er að hugsa hlutina alveg upp á nýtt er líka gott að rifja upp gamlar og góðar hugmyndir (Jón Torfi Jónasson, 2020). Þessu hefði Arendt eflaust verið sammála enda lagði hún áherslu á að hver hugsun væri, strangt til tekið, ákveðið endurlit (e. „every thought is, strictly speaking, an afterthought,“ Arendt, 1978, bls. 78) eða augnablik sem krefst þess að við stöldrum við og setjum hlutina í samhengi – einmitt til að geta hugsað þá upp á nýtt. Hér er ekki um þýðingu eða greiningu (svo sem þemagreiningu) á texta Arendt að ræða heldur fjalla ég, á nokkuð persónulegan hátt, um nokkrar af lykilhugmyndum hennar sem tengjast tilgangi menntunar og skólastarfs. Þar á meðal hvað felst í hugmyndinni að varðveita heiminn, að tilheyra samfélagi og að bregðast við krísu. Þá máta ég einnig hugmyndir hennar við nýlegri stefnur og strauma sem snúa að menntun til hnattrænnar borgaravitundar (e. global citizenship education) og birtast skýrt í nýlegri stefnumótun á alþjóðlegum vettvangi, svo sem í menntastefnu UNESCO og sem hluti af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Um höfund (biography)

Eva Harðardóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Eva Harðardóttir (evahar@hi.is) er aðjunkt og doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands (HÍ). Hún lauk sameiginlegri meistaragráðu í alþjóðlegri stefnumótun og stjórnun á sviði menntunar árið 2010 frá Deusto-háskólanum í Bilbao, Spáni og DPU í Kaupmannahöfn, Danmörku. Eva lauk diplóma í kennslufræði til kennsluréttinda árið 2008 og BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði og félagsfræði árið 2007 frá HÍ. Eva starfaði sem menntasérfræðingur hjá UNICEF í Malaví frá 2013–2016, sem framhaldsskólakennari við Menntaskólann á Akureyri 2018–2020 og sem kennari og verkefnastjóri hjá Alþjóðlega jafnréttisskólanum 2020–2022. Eva situr í stjórn RannMennt, rannsóknarstofu um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti og í stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Doktorsrannsókn Evu snýr að hnattrænni borgaravitund og inngildingu á vettvangi menntunar í tengslum við stöðu fólks með bakgrunn innflytjenda og flóttafólks en verkefnið felur meðal annars í sér þróun á sjónrænum og þátttökumiðuðum rannsóknarog kennsluaðferðum.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar