Mörk í nánu rými: #MeToo í sviðslistum og íþróttum
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/netla.2022.2Lykilorð:
#metoo, kynferðisleg áreitni, kynferðisofbeldi, sviðslistir, íþróttirÚtdráttur
Fátt hefur valdið jafnmiklu umróti í samfélaginu síðustu ár og reynslusögur kvenna af kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem birtar voru undir merkjum #MeToo. Á Íslandi hófst umræðan fyrir alvöru í nóvember 2017 þegar fyrstu sögur hópa kvenna birtust opinberlega. Alls birtu 17 hópar sögur þennan vetur. Sumir hópar kölluðu eftir breytingum með almennu orðalagi en aðrir lögðu fram sky?rar kröfur um aðgerðir. Tilgangur rannsóknar okkar var að kortleggja þessar kröfur og viðbrögðin við þeim til að reyna að meta árangur þessarar samfélagslegu hreyfingar. Við þrengdum viðfangsefnið og skoðuðum íþróttir og sviðslistir með greiningu fyrirliggjandi gagna og viðtölum við íþróttakonur, konur í sviðslistum og áhrifafólk tengt þessum tveimur hópum. Hóparnir eiga það sameiginlegt að eiga mikið undir valdamiklum einstaklingum, þjálfurum eða leikstjórum. Valdaójafnvægi er því mikið. Eins er návígið mikið, starfsvettvangur er lítill og fólk þekkist vel. Hluti af námi, þjálfun og starfi felst í að færa til mörk og þenja sig til hins ítrasta undir leiðsögn. Þá getur verið erfitt að átta sig á hvenær slíkt þróast yfir í misnotkun valds.
Við notuðum hálfstaðlaða viðtalsramma og báðum viðmælendur að segja okkur hvort eitthvað hefði breyst í daglegum störfum þeirra eftir #MeToo, eitthvað sem væri ekki endilega tengt formlegum breytingum.
Meginniðurstöður eru þær að formlegar breytingar urðu hvað íþróttahreyfinguna varðar en síður í sviðslistunum. Viðmælendur okkar voru þó sammála um að breytingar hefðu orðið á hegðun og framkomu hjá báðum hópum. Fleira væri rætt en áður og frekar tekið strax á óviðeigandi framkomu. Sértækari niðurstöður eru settar í kenningarlegt samhengi við félagslegan stöðugleika, hlutverk gleðispillisins og þekkingarlegt óréttlæti.