Svar við bréfi Fríðu
Skáldkonan Arnfríður Sigurgeirsdóttir og frænkan í vestrinu
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.33112/millimala.15.2.4Lykilorð:
Vestur-Íslendingar, Skáldkonur, Bréfaskriftir, FólksflutningarÚtdráttur
Margar alþýðuskáldkonur og kvenrithöfundar fóru til Vesturheims á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu árum þeirrar 20. Áhrif vesturferðanna náðu þó til fleiri kvenna en þeirra sem freistuðu þess að flytja sjálfar. Þessi grein fjallar um bréfaskipti tveggja náskyldra kvenna en önnur þeirra, Petrína Guðmundsdóttir (1855–1928), flutti til Norður-Dakóta árið 1893 ásamt eiginmanni og sonum þeirra þriggja. Bróðurdóttir Petrínu, skáldkonan Arnfríður Sigurgeirsdóttir (1880–1954), var barn að aldri þegar frænka hennar fór vestur. Fljótlega eftir komuna fór Petrína að skrifa Sigurgeiri bróður sínum og hvatti hann til þess að koma vestur með Arnfríði þar sem góður aðgangur væri að barnaskólum. Ameríkubréfin hættu hins vegar að berast í mörg ár. Af samanburði við aðrar heimildir má sjá að miklir erfiðleikar höfðu tekið við og fjölskylda Petrínu hraktist milli byggða í allnokkur ár.
Petrína fór loksins aftur að skrifa eftir að hún settist að í Vatnabyggð í Saskatchewan 1905 þar sem fjölskyldunni farnaðist vel. Arnfríður var þá orðin fullorðin kona og farin að yrkja vísur sem birtust í blöðunum undir skáldanafninu Fríða. Hún fékk þó aldrei að ganga menntaveginn eins og frænkan hafði vonast til enda hafði faðir hennar lítið milli handanna en móðir hennar var fallin frá. Í Séð að heiman (1952) lýsir Arnfríður reynslunni af því að alast upp sem óbreytt „vinnumannsdóttir“ í augum samfélagsins en hún var náin föður sínum og það var henni mikið áfall þegar hann féll frá 1911. Af bréfum Petrínu má sjá að Arnfríður velti því alvarlega fyrir sér að flytja vestur í kjölfar missisins enda átti hún sterkt fjölskyldunet í Norður-Ameríku sem gat gripið hana. Úr ferðinni varð ekki en bréfin sem hafa varðveist varpa ljósi á það hvernig alþýðukonur á borð við Petrínu og Arnfríði gátu ræktað tengslin sín á milli þrátt fyrir fjarlægðina