Örsagnaskáld með meiru

Knappir textar og önnur ritmennska ´Franz Kafka

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.33112/millimala.16.1.5

Lykilorð:

frásagnargreinar, örsögur, brot, höfundarverk, sk´áldskaparferill, Franz Kafka

Útdráttur

Grein þessi fjallar um hlut og mikilvægi örsagna í höfundarverki Franz Kafka. Fyrsta bók hans, Athugun (Betrachtung) er safn örsagna og þetta knappa frásagnarform setti umtalsverðan svip á þau verk sem hann gekk sjálfur frá til útgáfu, þó að meðal þeirra væru einnig nokkrar helstu smásögur Kafka sem og eitt þekktasta verk hans, nóvellan Umskiptin (Die Verwandlung). Hinsvegar var meirihluti ritverka Kafka óútgefinn er hann lést og þau komu út á löngu árabili, fyrst þrjár skáldsögur en síðan einnig nóvellur og smásögur, og voru margar þessara frásagna ófrágengnar og mega kallast brot, þó svo að það hafi ekki komið í veg fyrir síðbúinn frama Kafka sem eins helsta sagnaskálds 20. aldar. Í greininni er m.a. vikið að hugtakinu „brot“ og það rætt með hliðsjón af bæði knöppum og víðfeðmum frásagnartextum höfundarins.

Í greininni er staldrað við viðbrögð Kafka sjálfs þegar honum lánaðist að semja smásöguna „Dóminn“ haustið 1912 með miklum innblæstri á einni nóttu. Þarna urðu viss þáttaskil á ferli höfundar sem var hartnær þrítugur og átti ekki nema rúmlega áratug ólifaðan – en afköst hans á þeim árum voru með ólíkindum. Hinsvegar vanmat Kafka hugsanlega sjálfur, að minnsta kosti framan af, þátt örsagna í frásagnarlist sinni. Þær áttu verulegan þátt í leit hans að eigin frásagnaraðferðum og sögurnar í fyrstu bók hans vitna um þá sýn og þá hikandi en skapandi ígrundun sem með einstökum sviðsetningum er ýmist mótvægi eða tvíefling sviptinganna í sögum Kafka. Enda tók Kafka aftur til við örsögurnar undir árslok 1916 og í safni eftirlátinna rita hans fannst drjúgur forði þeirra, en þær leita einnig fram sem sögubrot í dagbókum hans.

Rýnt er í örsögur Kafka, viðfangsefni þeirra, innri byggingu og þann samslátt samfélagsmynda og fantasíu sem einkennir margar þeirra – og í greininni birtast nokkrar af sögunum reyndar í heild, þökk sé smæð þeirra.

Um höfund (biography)

  • Ástráður Eysteinsson, Háskóli Íslands - Hugvísindasvið

    Ástráður Eysteinsson (f. 1957) er með doktorsgráðu frá University of Iowa (1987) þar sem hann lagði stund á samanburðarbókmenntir og þýðingafræði. Hann er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2025-03-27

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar