Leiðbeiningar fyrir greinarhöfunda og ritrýna

Leiðbeiningar fyrir greinarhöfunda og ritrýna Tímarits um uppeldi og menntun

Leiðbeiningarnar sem pdf skjal

A. Almennt um skil handrita
Tímarit um uppeldi og menntun kemur út tvisvar á ári og er tekið á móti greinum allt árið. Tímaritið birtir greinar að jafnaði í þeirri röð sem þær eru tilbúnar til birtingar.

 

Ritstjórar taka ákvörðun um hvort handrit er sent í ritrýni og síðan afstöðu til þess hvort grein fæst birt í tímaritinu að lokinni ritrýni. Ráðgefandi ritnefnd er þeim til ráðuneytis.  Við ákvörðun um birtingu greina er í fyrsta lagi tekið mið af þeirri stefnu að um sé að ræða fræðilegar eða rannsóknartengdar greinar, í öðru lagi að þær eigi erindi til þeirra sem sinna uppeldis- og menntamálum í víðum skilningi og í þriðja lagi verður gætt að heildarsvip tímaritsins hverju sinni. Meginreglan er sú að innsendar greinar hafi ekki birst annars staðar.

Fyrsti höfundur greinar er jafnframt ábyrgðarmaður og tengiliður við ritstjóra. Nöfn höfunda eru birt í sömu röð og tilgreint er í handriti. Ef ritstjórar meta greinina svo að hún eigi erindi í tímaritið og uppfylli kröfur um efni og framsetningu er hún send til a.m.k. tveggja fræðimanna til ritrýningar. Þegar grein kemur úr ritrýni er hún send höfundi ásamt skýrslu ritstjóra. Ef greinin var flokkuð þannig að hana væri hægt að birta eftir tilgreindar breytingar (2. fl.), þá endurskoðar og lagfærir höfundur hana í samræmi við ábendingar ritrýna og ritnefndar. Höfundur sendir greinina síðan aftur til tímaritsins með greinargerð um þær breytingar sem hann hefur gert á greininni. Handritið er þá sent í ritrýni og ákvörðun um birtingu í kjölfar hennar. Sé höfundi boðið að senda nýja gerð af grein (3. fl.) þarf hann einnig að gera greinargerð um breytingar. Nýja gerðin verður yfirfarin af ritstjórum á sama hátt og ný grein og send til ritrýni.

Birting greina í tímaritinu felur í sér leyfi til birtingar í rafrænni útgáfu og prentútgáfu. Innsend grein með ósk um birtingu felur í sér þetta leyfi. Höfundur ber ábyrgð á próförk greinar en tímaritið áskilur sér þó rétt til að breyta orðalagi eða stafsetningu við lokafrágang ef svo ber undir og nauðsyn krefur.

 

B. Framsetning efnis fyrir ritrýningu
Kröfur þessar miðast við handrit á íslensku. Miðað er við að framsetning efnis sé í samræmi við venjur sem gilda í virtum erlendum tímaritum um uppeldis- og menntamál í víðum skilningi. Miðað er við APA-kerfið við gerð heimildaskrár, tilvísanir í texta, frágang á töflum og myndum, kaflafyrirsagnir og lengd beinna tilvitnana. Neðanmálsgreinar verða ekki birtar en ef þörf krefur er heimilt að hafa aftanmálsgreinar sem kallast athugasemdir, í lágmarki þó, sem skulu vera strax á eftir texta greinarinnar. Reglur um framsetningu má finna í Publication Manual of the American Psychological Association, nýjustu útgáfu og á Leiðbeiningavef ritvers Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (https://skrif.hi.is/ritver). Vitna skal til eiginnafns og kenninafns íslensks höfundar en ekki kenninafns eingöngu eins og gildir um erlenda höfunda. Jafnframt skal raða íslenskum höfundum í heimildaskrá samkvæmt eiginnafni þeirra. Ætlast er til að beinar tilvitnanir úr erlendum tungumálum séu þýddar á íslensku og tekið skal fram að um þýðingu höfundar sé að ræða, nema annar hafi þýtt.

Mikilvæg atriði varðandi skil handrita. Vinsamlegast farið yfir handrit áður en því er skilað með hliðsjón af þessum gátlista.

 • Lengd handrita skal að jafnaði vera á bilinu 5000–8500 orð að meðtalinni heimildaskrá, athugasemdum og ágripi á íslensku og ensku. Myndir og töflur ef þær eru mjög fáar geta líka talist utan orðafjöldans.
 • Handrit skulu vera með 12 pt. letri (Times New Roman) og línubili 1,5. Inndregnar tilvitnanir skulu vera í 11 pt. letri og ekki í tilvitnunarmerkjum.
 • Einfalt orðabil skal vera á eftir punkti.
 • Forðast skal að nota skáletur, til dæmis er það ekki notað þegar á erlendum orðum í sviga. Einnig skal forðast skammstafanir.
 • Nota skal íslenskar gæsalappir og fylgja öðrum reglum um greinarmerki, til dæmis að gera greinarmun á bandi (-) og striki (–); strik er til dæmis haft til að tengja saman aldursbil, blaðsíðutöl og ártöl.
 • Greinilegt skal vera hvað eru kaflafyrirsagnir og undirfyrirsagnir, ef við á.
  • Greinarheiti á ensku og fyrirsagnir kafla skulu vera feitletraðir lágstafir 14 p. fyrir miðju
  • Millifyrirsagnir í köflum skulu vera feitletraðir 12 p. og vera fremst í línu
  • Ef það þarf eitt lag enn af fyrirsögnum, sem þó skal forðast, skal skáletra án feitleturs fremst í hverri línu, 12 p.
  • Tilvitnanir til eigin verka höfunda(r) skulu faldar. Skal þá segja í
   tilvísuninni „Höfundur, ártal eða Höfundur og samstarfsfólk, ártal).
 • Myndir og töflur skulu vera með sem einföldustu sniði og á sérsíðum aftast í handriti en merkt við í handritinu hvar þær skulu staðsettar (t.d. tafla 1 hér).
 • Greinar skulu vera vel yfirfarnar með tilliti til málfars og framsetningar.
 • Heimildaskrá skal sett upp samkvæmt APA-kerfinu (sjá Leiðbeiningavef ritvers Menntavísindasviðs Háskóla Íslands). Allar upplýsingar (svo sem heiti greina og bóka þar sem einnig skal tilgreina undirtitla, blaðsíðutöl í tímaritum, nöfn höfunda og upphafsstafir þeirra) í henni þurfa að vera réttar. DOI-númer á að fylgja ef við á.
  • Athuga ber að þrátt fyrir að annað komi fram í APA-kerfinu óskar Uppeldi og menntun eftir því að heftisnúmera allra tímarita sé getið.
  • Þá óskar tímaritið eftir því að sem útgefandi aðalnámskrár sé ráðuneyti í höfundarsæti í tilvísunum og heimildaskrá.
 • Greininni skal fylgja 100–150 orða ágrip á íslensku og 600–800 orða abstract á ensku, og auk þess heiti greinarinnar á ensku.
 • Grein skulu fylgja 3–5 efnisorð á íslensku og 3–5 keywords á ensku.
 • Greininni skal fylgja 40–70 orða æviágrip höfunda/r. Þar skal koma fram netfang og starf í dag, prófgráður (grein, háskóli, ártöl) og helstu rannsóknarsvið.
 • Bréf (cover letter) um greinina þar sem óskað er eftir birtingu á henni. Í bréfinu á einnig að vera skrá um faldar tilvísanir til verka höfunda/r.

 

Tímaritið tekur einnig við handritum að rannsóknargreinum á ensku. Reglur um framsetningu og frágang taka þá mið af því að farið sé eftir bandarískum gerðum APA-kerfisins. Þess er ekki krafist að neinar upplýsingar séu á íslensku í þeim handritum. Ritstjórar áskilja sér heimild til að hafna handritum sem hvorki fjalla um íslenskt rannsóknarviðfangsefni né eru ritaðar af höfundum búsettum á Íslandi.

 

C. Viðmiðanir við ritrýningu
Greinarhöfundum er bent á að við ákvarðanir ritstjóra og við ritrýningu greina er lögð áhersla á eftirfarandi:

 1. Er heiti greinarinnar lýsandi fyrir efni hennar?
 2. Er útdráttur nákvæmur, lýsandi og í samræmi við innihald greinarinnar?
 3. Er meginefni greinar, tilgangi og efnistökum lýst í inngangi?
 4. Er greinin sett í fræðilegt samhengi?
 5. Er gerð grein fyrir nýjustu rannsóknum á sviðinu
 6. Er gerð grein fyrir mikilvægi rannsóknarefnisins?
 7. Er tilgangur rannsóknarinnar og/eða rannsóknarspurningar ljós?
 8. Er gerð grein fyrir rannsóknarsniði og rannsóknaraðferðum?
 9. Er gerð skýr grein fyrir hvernig unnið var úr gögnum?
 10. Eru niðurstöður settar fram á skýran hátt og studdar þeim gögnum sem safnað var?
 11. Eru ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum svör við þeim spurningum sem lagt var af stað með og studdar þeim gögnum sem safnað var og þeim kenningum og heimildum sem fjallað hefur verið um?
 12. Er niðurlag greinarinnar skýrt fram sett?
 13. Bætir greinin við skilning og þekkingu á sviðinu?
 14. Leggur greinin eitthvað af mörkum til rannsókna, starfsvettvangsins eða stefnumörkunar á sviði uppeldis og menntamála?
 15. Er málfar í greininni gott?
 16. Er skipulag og framsetning greinarinnar skýrt?
 17. Er heimildanotkun og tilvísanir til heimilda í samræmi við kröfur sem gerðar eru til fræðilegra greina (sbr. einnig APA-kerfið)?
 18. Aðrar athugasemdir.

 

Ritrýni fyrir tímaritið Tímarit um uppeldi og menntun er „nafnlaus“. Ritrýnar eru beðnir að skrifa greinargerð í sérstakt form, sem þeir fá sent, og taka tillit til ofangreindra atriða þegar þeir meta greinarnar, eftir því sem við á.

 

D. Flokkun greina
Þegar ritrýnir hefur lesið yfir greinina og gert athugasemdir er hann beðinn um að setja hana í einn af eftirfarandi flokkum og rökstyðja þá niðurstöðu:

 1. Greinina er hægt að birta (eftir að greinin hefur verið yfirfarin af tímaritinu).
 2. Greinina er hægt að birta eftir að gerðar hafa verið á henni tilgreindar breytingar.
 3. Greininni er hafnað í núverandi gerð en nýja gerð má senda til ritrýningar.
 4. Greininni er hafnað.

 

Ritstjórar taka endanlega ákvörðun um í hvaða flokk grein er sett en fara að jafnaði eftir því sem ritrýnar mæla ef þeim ber saman um flokkunina.

 

E. Ritdómar, greinar um bækur og annað efni
Tímaritið birtir ritdóma, greinar um bækur og annað efni sem þykir hæfa eftir því sem ástæða er til hverju sinni. Almennt gildir um þetta efni að ritstjórar hafa frumkvæði að því en þiggja ábendingar og hugmyndir um þess háttar efni.

Sérstaklega er tímaritið áhugasamt um að fá ritdóma um íslenskar fræðibækur, bækur um fagleg málefni ætluð fagfólki eða almenningu og námsefni. Einnig um erlendar fræðibækur ef þær teljast eiga erindi við íslenskt fræðasamfélag.

Einnig vilja aðstandendur þess birta ritdóma um námsefni og annað efni fyrir fagfólk, svo sem prentað efni, hljóðefni og vefsíður, ef efnið telst verðskulda slíka umfjöllun. Ritdómur skal vera á bilinu 1000–1500 orð að jafnaði og skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um bókina eða efni sem ritdómurinn fjallar um. Greinar um bækur, öðru nafni ítardómar, eru nokkru lengri, geta verið allt að 3000 orð, og fjalla um fleiri en eina skylda bók eða námsefni sem þykir viðeigandi að meta saman. Þá eru gerðar kröfur um að vísað sé fræðilegrar umræðu. Handrit að ítardómi verður sent til eins aðila utan ritnefndar áður en ákvörðun um birtingu verður tekin.

Apríl 2016