Leiðbeiningar til höfunda um frágang greina

Ritröð Guðfræðistofnunar – Leiðbeiningar til höfunda um frágang greina

(m.a. skv. leiðbeiningum Ritsins sem vísað er til að öðru leyti en hér kemur fram)

Leiðbeiningarnar á pdf formi

Viðmiðanir um tilvísanir

Við vísun til heimilda er notuð samsett tilvísana- og heimildaskrá. Í þessu kerfi er ekki nauðsynlegt að vera með heimildaskrá í lokin nema í undantekningartilvikum og þá í samráði við ritstjóra. Allar bókfræðilegar upplýsingar um verkið sem vitnað er til eru gefnar í númeruðum neðanmálsgreinum (þegar fyrst er minnst á verkið). Hér að neðan eru viðmiðunarreglur um algengar gerðir tilvísana. Um aðrar gerðir, s.s. tilvísanir í skjöl, viðtöl og vefsíður, skal gæta samræmis innan greinar.

Heimasíðu Ritraðarinnar er að finna á: https://ojs.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar

1. Þegar vitnað er til bókar (mónógrafíu) í fyrsta sinn:

Nafn höfundar, bókartitill, útgáfustaður: forlag, útgáfuár, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

 Dæmi:

Judith Butler, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, London og New York: Routledge, 1990, bls. 132.

Geta skal ritraða, ásamt ritstjóra, ef bókin er í ritröð. Ekki er þörf á að nefna ritstjóra tímarita.

Dæmi:

Eiríkur Guðmundsson, Gefðu mér veröldina aftur: Um sjálfsævisöguleg skrif Íslendinga á átjándu og nítjándu öld með hliðsjón af hugmyndum Michels Foucault, Studia islandica/Íslensk fræði 55, ritstj. Vésteinn Ólason, Reykjavík: Bókmenntafræði­stofnun Háskóla Íslands, 1998, bls. 33–50.

2. Þegar vitnað er til greinar í bók í fyrsta sinn:

Nafn höfundar, „greinartitill“, bókartitill, ritstjóri/þýðandi, útgáfustaður: forlag, útgáfuár, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi:

Elizabeth A. Johnson, „Losing and Finding Creation in the Christian Tradition“, Christianity and Ecology: Seeking the Well-Being of Earth and Humans, ritstj. Dieter T. Hessel og Rosemary Radford Ruether, Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press, 2000, bls. 3–21.

3. Þegar vitnað er til tímaritsgreinar í fyrsta sinn:

Nafn höfundar, „greinartitill“, heiti tímarits árgangur:hefti/útgáfuár, ritstjóri/þýðandi, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

 Dæmi:

Willis Jenkins, „After Lynn White: Religious Ethics and Environmental Problems“, Journal of Religious Ethics 37:2/2009, bls. 283–309, hér 285.

 Sigurður Steinþórsson, „Annus mirabilis. 1783 í erlendum heimildum“, Skírnir: Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags 166: vor/1992, bls. 133–155, hér bls. 139, 141, 143, 147.

(Hér samanstendur 37. árgangur af a.m.k. 1. og 2. hefti, sem eru að öðru leyti eins merkt, og 166. árg. bæði af vor- og hausthefti og því er nauðsynlegt að greina á milli.)

Sé hins vegar hvert hefti sér um númer (hlaupandi númer) og ekki vísað til árgangs, skal sleppa því að geta um hvaða hefti á árinu um ræðir.

 

Dæmi:

Gunnar Kristjánsson, „Vonin í guðfræði Moltmanns“, Ritröð Guðfræðistofnunar 25/2007, bls. 25–43.

(Til skýringar: Ritröð Guðfræðistofnunar 24 = 1. hefti á árinu 2007 og Ritröð Guðfræðistofnunar 25 = 2. hefti á árinu 2007. Hér nægir að geta um hlaupandi númer heftis í Ritröðinni (hér 24 eða 25) því að 1. hefti / 2. hefti er óþarft og því þar með sleppt þar eð ekkert hefti er t.d. númerað 25:1/2007).

4. Þegar vísað er í dagblöð:

Nægilegt er að geta dagsetningar og blaðsíðutals.

Dæmi:

Halldór Halldórsson, „Mál og Menning“ [sic], Tíminn 8. apríl 1956, bls. 4.

5. Þegar vísað er aftur í rit:

Ef tilvísun í sama rit kemur í beinu framhaldi:

Sama rit, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

 

Dæmi:

Sama rit, bls. 307.

Ef tilvísun í sama rit kemur síðar í greininni:

 

Bók:

Nafn höfundar, Bókartitill (má stytta ef langur), blaðsíðutal.

 

Dæmi:

Judith Butler, Gender Trouble, bls. 125.

 

Bókarkafli:

Nafn höfundar, „Heiti kaflans (má stytta ef langur),“ blaðsíðutal.

 

Dæmi:

            Elizabeth A. Johnson, „Losing and Finding Creation“, bls. 14–15.

           

Grein:

Nafn höfundar, „Greinartitill (má stytta ef langur),“ blaðsíðutal.

 

Dæmi:

Willis Jenkins, „After Lynn White“, bls. 289.

 

Ef augljóst er af samhengi í hvaða rit er verið að vísa dugar blaðsíðutal innan sviga í meginmáli (bls. 88).

 

 

5. Að vitna í rafrænar heimildir:

Nafn höfundar, „titill greinar“, nafn vefsíðu, ártal greinar ef við á, sótt dagsetning og ártal af http://vefslóð

Dæmi:

Gunnar Kristjánsson, „Trúmaður á tímamótum“, Tru.is, 30. nóvember 2011, sótt 20. febrúar 2012 af http://tru.is/pistlar/2011/11/trumadur-a-timamotum.   

 

6. Ýmislegt tengt tilvísunum

Undirtitlar: Undirtitla skal afmarka frá titli með tvípunkti. Þá skal birta þegar fyrst er vitnað í heimild en eftir það skal þeim sleppt.

 

Dæmi:

Fyrsta birting: Helga Kress, Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993, bls. 78.

Önnur birting: Helga Kress, Máttugar meyjar, bls. 101.

 

Ritsafn og bindi: Ef bindi í ritsafni bera öll sinn titill þarf ekki að taka fram við hvaða bindi er átt.

Ef formáli er eftir annan en höfund bókar: Nafn höfundar formála, „titill formála“, nafn höfundar bókar, bókartitill, ritstj. nafn ritstjóra, útgáfustaður: útgefandi, útgáfuár, heildarblaðsíðutal formála, blaðsíður sem vitnað er til.  

Ef um greinasafn er að ræða gilda sömu reglur og þegar vitnað er til greinar/kafla í safninu.

Erlend hugtök

 

Ef nauðsynlegt er talið að sýna erlent hugtak til skýringar á íslensku hugtaki þá er það gert svona:

„Heimspekileg hluthyggja (e. realism) hefur átt undir… “

 … hið eiginlega verk Guð (lat. opus proprium Dei) og hið „framandi“ verk Guðs (lat. opus alienum Dei) …

 Þetta er mjög æskilegt ef um nýyrðasmíð er að ræða eða lítið þekkt hugtak. Lesandinn vill oft geta glöggvað sig nánar á merkingunni með því að fletta uppá erlenda heitinu.

 Nokkur frágangsatriði og tákn

 Nota skal arabískar tölur í ártölum og númerum bindis og/eða heftis. Ekki skal stytta ártöl eða blaðsíðutöl.

 Dæmi: „á árunum 1939–1945“ (ekki 1939–45) og „bls. 123–147“ (ekki 123–47).

 Mælt er með að konunga- og páfanúmer séu rituð með rómverskum tölum án punkts (t.d. Kristján IX, Lúðvík XIV, Jóhannes Páll II).

Tilvísanir í Biblíuna skulu vera skv. biblíuútgáfunni 2007 (þ.m.t. skammstafanir án punkts), þ.e. ekkert bil er á milli tölu og heitis biblíurits og punktur er notaður til að sýna skil milli kafla og ritningargreinar: t.d. 1Mós 1.26, 28. (Orðið Biblía skal skrifa með stórum staf en samsett orð með biblíu- að fyrri lið með litlum. Valfrjálst er hvort orðið Guð/guð er skrifað með litlum eða stórum staf svo framarlega sem samræmis er gætt innan greinar.)

 

Breyta skal merkinu & í og þegar það stendur t.d. á milli nafna höfunda og ritstjóra en halda skal því í heitum erlendra bóka og/eða útgáfufyrirtækja (eins og er á titilsíðu verksins).

Strik

Greina skal á milli tengistrika (bandstrika) (-) , hálfstrika (–)  og þankastrika (—).        Til-strik (hálfstrik) sé haft – (Ctrl 0150) (án bils) og þankastrik — (Ctrl 0151) með bilum hvoru megin, einnig í enskum texta.

 

Tengistrik (bandstrik) er notað til að sýna skiptingu orða á milli lína og til að tengja samsett orð og örnefni: Brennu-Njáll, Litlu-Reykir. Tengistrik er einnig notað í stað fyrri eða síðari liðar í samsettum orðum til að forðast endurtekningu: inn- og útborganir, norður- og austuramt.

 

Hálfstrik (n-strik) í tölvusetningu er notað í stað forsetningarinnar til milli talna og þá án stafbils. (Í ritvinnsluforritinu Word fyrir PC-tölvur fæst táknið með því að styðja á Crtl+0150. Á Macintosh-tölvum fæst hálfstrik með Alt+-.)

• Ráðstefnan var haldin dagana 24.–25. nóvember 1962.

• Þessir atburðir gerðust í heimsstyrjöldinni síðari 1939–1945.

• Á bls. 125–132 fjallar höfundur um mannanöfn.

 

Þankastrik (m-strik) er notað til að afmarka andstæður, óvænt atriði, snögg umskipti í frásögninni, innskot eða viðauka sem menn vilja sérstaka áherslu á — eða eitthvað því um líkt — og er það þá skilið frá texta með einu stafbili. Dæmi:

• Í Háskóla Íslands — og hvergi nema þar — er kennd bókasafnsfræði.

• Mér féll vel við alla nemendur mína — nema einn.

• Í Þýskalandi — og raunar í mörgum öðrum löndum — eru hálfgerðir múrar milli fræðimanna...

(Í ritvinnsluforritinu Word fyrir PC-tölvur fæst táknið með því að styðja á Ctrl+0151. Á Macintosh-tölvum fæst þankastrik með Alt+Shift+-.)