Lýðræðisleg forysta í leikskólum

Anna Magnes Hreinsdóttir, Arna Hólmfríður Jónsdóttir

Útdráttur


Markmið rannsóknarinnar, sem fjallað er um í þessari grein, er að varpa ljósi á lýðræðislega forystu í leikskólum í þeim tilgangi að greina hvað hvetur og hindrar leikskólastjóra í að beita lýðræðislegum stjórnunarháttum. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg forysta hvetur til samvinnu. Slík forysta hvetur þá sem að starfinu koma til að vera virkir þátttakendur í skólastarfinu. Hana má skilgreina sem heilveldi (e. holarchy) – sem mótvægi við stigveldi (e. hierarchy). Það felur í sér skuldbindingu starfsfólks og barna gagnvart sameiginlegum gildum lýðræðis og félagslegs réttlætis. Einn þáttur lýðræðislegrar forystu í skólum er að virkja fólk í umræðu en þannig er komið á lýðræðislegum skólabrag og lærdómssamfélagi í leikskólanum, hvatt til frjálsra skoðanaskipta og umræðu og leitað eftir sjónarmiðum og viðhorfum kennara, foreldra og barna. Hálfopin einstaklingsviðtöl voru tekin við átta leikskólastjóra víðs vegar um landið en þau henta vel til að kanna reynslu, skynjun og fyrirætlanir fólks. Tveir rannsakendur skiptu á milli sín viðtölunum og tóku þeir fjögur viðtöl hvor. Niðurstöður leiða í ljós að öllum viðmælendum fannst mikilvægt að beita lýðræðislegri og þátttökumiðaðri forystu í leikskólunum. Auðveldara er að virkja fólk, starfið verður skemmtilegra og starfsánægjan meiri, var meðal þess sem viðmælendur töldu helstu kosti við að beita lýðræðislegri forystu. Eigin þankagangur, getuleysi, áhugaog ábyrgðarleysi var nefnt sem helstu hindranir þess að beita lýðræðislegri forystu; einnig tregða við að gefa frá sér vald og auka frelsi. Fræðilegt gildi rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu á lýðræðislegri forystu og tengslum hennar meðal annars við aukna þátttöku starfsfólks, foreldra og barna í leikskólastarfi og félagslegt réttlæti.

Efnisorð


lýðræði; heilveldi; stigveldi; leikskóli; félagslegt réttlæti

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2023.8

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir