„Þú þarft að hafa breitt bak til að vinna í svona“: Reynsla stuðningsfulltrúa af krefjandi hegðun barna í grunnskólum
Árdís Flóra Leifsdóttir, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Annadís Greta Rúdólfsdóttir
Útdráttur
Krefjandi hegðun grunnskólabarna hefur verið viðfangsefni fjölda rannsókna bæði innanlands sem utan. Stuðningsfulltrúum hefur fjölgað í íslenskum grunnskólum, meðal annars til þess að efla framkvæmd skóla án aðgreiningar, og algengt er að þeir styðji börn vegna krefjandi hegðunar. Í þessari rannsókn, sem byggð er á fyrirbærafræðilegri nálgun, var sjónum því beint að reynslu stuðningsfulltrúa af að styðja við grunnskólabörn sem sýna hegðun sem skólasamfélaginu þykir krefjandi og líðan þeirra í starfi. Sex hálfopin viðtöl voru tekin við stuðningsfulltrúa á Suðvesturlandi og eftirfarandi þemu greind í svörum þeirra: 1) vanlíðan barna er ástæða krefjandi hegðunar, 2) yfirveguð og góð samskipti henta best til að koma til móts við börn, 3) stuðningsfulltrúi er látinn axla ábyrgð á krefjandi hegðun og vinnufriði í skólastofunni en skortir stuðning og 4) undirbúningur og fræðsla fyrir starfið eru mikilvæg. Niðurstöður sýndu að þátttakendur teldu að ástæða hegðunarerfiðleika væri vanlíðan barna og þætti mikilvægt að bregðast við með ró. Þeir lögðu sig fram um að eiga gott samband við nemendur en skortur á viðeigandi fræðslu um hegðun og þarfir barna var áberandi og olli óöryggi. Stuðningur frá samstarfsfólki skipti máli fyrir líðan og úthald stuðningsfulltrúa í starfi með börnum sem sýndu krefjandi hegðun en var oft af skornum skammti. Breytinga er þörf á starfsháttum skóla í stuðningi við hegðun og líðan barna. Nauðsynlegt er að efla fræðslu og þjálfun fyrir allt starfsfólk og einkum fyrir stuðningsfulltrúa ef halda á áfram að fela þeim meginábyrgð á stuðningi við börn með miklar stuðningsþarfir.
Efnisorð
skóli án aðgreiningar; stuðningsfulltrúar; krefjandi hegðun; samskipti; líðan; fræðsla
DOI:
https://doi.org/10.24270/netla.2023.6
Baktilvísanir