Tengsl fræða og starfs í kennaramenntun: Sjónarhorn nema
Berglind Gísladóttir, Amalía Björnsdóttir, Birna María B. Svanbjörnsdóttir, Guðmundur Engilbertsson
Útdráttur
Kennaramenntun hefur víða verið gagnrýnd fyrir skort á samhengi innan námsins og einnig skort á tengslum milli námskeiða í kennaranámi og starfa kennara á vettvangi. Alþjóðlegar rannsóknir á kennaramenntun benda til þess að lykilatriði í árangursríkum undirbúningi fyrir kennarastarfið séu tækifæri til að læra og æfa aðferðir sem byggja á og tengjast raunverulegu starfi kennara í kennslustofu. Því leggja rannsakendur og stefnumótendur um allan heim í síauknum mæli áherslu á að móta aðferðir í kennaramenntun sem brúa bilið milli fræða og starfs. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða sýn nema á samhengi í grunnskólakennaranámi og tækifæri sem þeir fá til að tengja saman fræði og starf með árangursríkum hætti. Gögnum var safnað með spurningakönnun þar sem upplifun nema af ýmsum þáttum kennaranámsins var skoðuð og svöruðu 178 nemar á lokaári í grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Skoðað var hvort munur væri á sýn nema eftir háskólum, hvort þeir væru í launuðu starfsnámi eða hefðbundnu vettvangsnámi og hvort þeir væru í fimm ára samfelldu kennaranámi eða meistaranámi að lokinni bakkalárgráðu af öðru sviði. Niðurstöður gefa vísbendingar um að námið undirbúi kennaranema nokkuð heildstætt undir kennslu að námi loknu en gefa einnig til kynna að rými sé til úrbóta þegar kemur að tengslum fræða og starfs.
Efnisorð
kennaramenntun; grunnskólakennaranemar; tengsl fræða og starfa; samhengi í námi
DOI:
https://doi.org/10.24270/netla.2023.5
Baktilvísanir