Þættir sem hafa áhrif á möguleika grunnskólakennara til að styðja við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda

Sigrún Harðardóttir, Ingibjörg Karlsdóttir, Alex Björn Stefánsson

Útdráttur


Kennarar þurfa að hafa velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku. Því er það hverju samfélagi mikilvægt að kennurum sé gert kleift að laga kennslu að fjölbreytilegum þörfum nemenda. Í þessari grein er sagt frá niðurstöðum spurningalistakönnunar sem send var kennurum á grunnskólastigi (N=478) námsveturinn 2018–2019 með það að markmiði að kanna viðhorf þeirra og reynslu af stuðningi við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda í grunnskólum. Þá er átt við börn sem hafa verið greind með ADHD, einhverfu, almenna og sértæka námserfiðleika, tilfinningalega og félagslega erfiðleika og Tourettesheilkenni. Leitað var svara við rannsóknarspurningunni „Hver eru viðhorf og reynsla kennara af stuðningi við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda í grunnskólum?“ Niðurstöður sýna að um helmingur kennara taldi að sér gengi vel að laga námið að þörfum nemenda. Helstu ástæður voru mikil starfsreynsla, góður stuðningur frá samstarfsfólki og hæfilegur fjöldi nemenda í bekk. Þeir kennarar sem töldu að sér gengi illa að aðlaga námið sögðu að helstu ástæðurnar væru of lítill tími til undirbúnings, of margir nemendur með hegðunar- og námserfiðleika í bekkjum og of lítið framboð af aðlöguðu námsefni þar sem tekið væri mið af fjölbreytilegum þörfum nemenda. Einnig kom fram að um sjö af hverjum tíu kennurum töldu sig ekki hafa fengið næga þjálfun í kennaranáminu til að takast á við fjölbreytilegar þarfir nemenda. Niðurstöður gefa til kynna að breytinga sé þörf í starfsumhverfi kennara til að þeir geti sinnt fjölbreyttum hópi nemenda í samræmi við stefnu um skóla án aðgreiningar.

Efnisorð


grunnskóli; skóli án aðgreiningar; námserfiðleikar; kennarar; stuðningur; úrræði

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.86

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir