Skuldbinding nemenda og tengsl við kennara í framhaldsskóla

Kristjana Stella Blöndal, Elva Björk Ágústsdóttir

Útdráttur


Miklu skiptir fyrir farsæla skólagöngu að nemendur taki virkan þátt í skólanum, tengist skólasamfélaginu og finnist námið merkingarbært. Rannsóknir sýna að stór hópur framhaldsskólanemenda virðist afhuga námi og samsama sig ekki skólanum. Lítil skuldbinding á þessu aldursskeiði hefur verið rakin til þess að framhaldsskólaumhverfið komi ekki nægilega til móts við þarfir nemenda á þessu þroskaskeiði en rannsóknir skortir. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á samskipti nemenda og kennara í framhaldsskóla og hvernig reynsla nemenda mótar skuldbindingu þeirra til náms og skóla. Leitast verður við að svara því hvaða þættir í samskiptunum efla skuldbindingu nemenda til náms og skóla. Tilgangurinn er að dýpka innsýn kennara og annars skólafólks í reynslu framhaldsskólanemenda og þar með stuðla að góðum tengslum kennara og nemenda og farsælli skólagöngu. Byggt er á eigindlegri viðtalsrannsókn sem náði til 15 nemenda í sex mismunandi framhaldsskólum. Rannsóknin var framkvæmd á tímum samkomutakmarkana vegna COVID-19 og var spurt um reynslu framhaldsskólanemendanna af samskiptum við kennara fyrir heimsfaraldurinn annars vegar og hins vegar í gegnum tölvuskjá þegar hefðbundið skólahald lagðist af. Með því að beina sjónum að skólahaldi við þessar ólíku aðstæður var leitast við að draga skýrar fram sýn ungmenna á þá þætti í samskiptum við kennara sem eru þeim mikilvægir. Greina mátti þrjú meginþemu í upplifun ungmennanna á jákvæðum samskiptum kennara og nemenda. Þau eru 1) að kennarinn leitast við að skapa tengsl við nemendur, 2) að umhyggja og stuðningur kennarans eykur vellíðan nemenda, og 3) að hvetjandi nærvera kennarans er drifkraftur í námi. Skýrt kom fram hversu miklu máli tengsl við kennara skiptu fyrir skuldbindingu viðmælenda og lýstu þeir hvernig góð tengsl við kennara höfðu jákvæð áhrif á nám þeirra, virkni, vellíðan og gleði í skólanum. Aftur á móti upplifðu þeir minna aðgengi að kennurum í framhaldsskólum en þeir áttu að venjast í grunnskóla. Þótt samband kennara og nemenda breytist eftir því sem nemendur þroskast og framhaldsskólinn sé talinn ópersónulegri en fyrri skólastig, varpa niðurstöðurnar ljósi á einstakt hlutverk kennara og hve mikilvægt náið samband kennara og nemenda er fyrir skólagöngu framhaldsskólanema.

Efnisorð


náin tengsl kennara og nemenda; skuldbinding nemenda; framhaldsskóli; forvarnir; farsæl skólaganga

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.78

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir