Sálfræði í skólastarfi
Útdráttur
Greinin er framlag til umræðu um skólasálfræði á Íslandi – meðal kennara og skólafólks, sálfræðinga og helst á milli allra þessara hópa. Tvenns konar skólasálfræði er kynnt til sögunnar; fyrst fræðin sem æskilegt er að kennarar kunni deili á og síðan fagið sem „skólasálfræðingar“ stunda og standa fyrir. Skýrð eru grundvallaratriði sem lúta að hagnýtingu sálfræðinnar og kynnt málefni sem skipta máli fyrir sameiginlegan skilning kennara og sálfræðinga á hlutverki sálfræðinnar í skólastarfi. Næst er vikið að sálfræði í námi og starfi kennara – og loks er fjallað um þróun í starfi skólasálfræðinga á Íslandi og æskilega stefnu í þeim efnum – með sérstöku tilliti til skóla án aðgreiningar.
Við teljum að nýting sálfræðinnar í skólastarfi eigi einkum að byggjast á viðteknum kenningum með sterka rannsókna- og staðfestingasögu, til dæmis um nám, áhuga og þroskaferli – en síður á almennum kenningum sem ætlað er að treysta gildi á við mannúð, réttsýni og lýðræði í kennslu. Sálfræði er auðvitað ekki sneydd gildismati en greinin gagnast best í skólastarfi þegar traustur rannsóknaþáttur og gagnreyndar aðferðir – í samvinnu við kennara – einkenna starfið.
Í sögu sérfræðiþjónustu í íslenskum skólum frá áttunda áratug síðustu aldar til nútímans má greina ósamstæð markmið – einkum með hliðsjón af menntastefnu um skóla án aðgreiningar á síðari hluta þessa tímabils. Stefnan er að skólinn eigi að vera fyrir öll börn en nauðsynleg sérfræðiþjónusta til að gera það mögulegt er ekki til staðar innan skólanna. Síðasta aldarfjórðung hefur áhersla í sérfræðiþjónustunni verið á ráðgjöf sem geri kennurum kleift að leysa fjölþætt vandamál innan skólanna, iðulega utan þeirra sérsviðs. Þetta eykur líklega álag og setur mark á starfsanda og árangur í skólum. Aukin þörf fyrir sérfræðiþjónustu í skólum kallar á að lög og reglur beini slíkri þjónustu þangað – ekki þaðan. Þörf er á endurskoðun á lögum og reglugerðum þannig að sérfræðiþekking nýtist til lausnar innan skóla
Efnisorð
Heildartexti:
PDFDOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.76
Baktilvísanir
- Engar baktilvísanir