Áherslur á mannréttindi í skólastarfi: Innsýn í aðferðir Réttindaskólans

Ragný Þóra Guðjohnsen, Sigrún Aðalbjarnardóttir

Útdráttur


Áhersla á mannréttindi hefur á síðustu áratugum komið sterkar fram í menntastefnum vestrænna ríkja og er Ísland þar á meðal. Máttur menntunar er mikill, sér í lagi þegar tryggja þarf mannréttindi og mannúð í síbreytilegum heimi. Því er mikilvægt að menntakerfi leggi áherslu á að börn og ungmenni læri um réttindi sín, ábyrgð og skyldur sem er grunnur þess að lifa í samfélagi með öðrum. Með þetta að leiðarljósi varð þróunarverkefnið Réttindaskóli UNICEF til hér á landi árið 2016–2017. Tilgangur greinarinnar er í fyrsta lagi að rekja í sögulegu ljósi hvernig réttindi barna og ungmenna þróast í íslenskri menntalöggjöf og fá dýpri og víðari merkingu frá fyrstu löggjöfinni um fræðslu barna árið 1907 til þeirrar nýjustu árið 2008 um grunnskólastarf. Í öðru lagi að kynna niðurstöður úr fyrstu tilviksrannsókn hér á landi á Réttindaskólaverkefni UNICEF. Tekin voru þrjú viðtöl við skólafólk í tveimur Réttindaskólum um sýn þess á markmið, leiðir og gildi verkefnisins. Einnig var aflað gagna frá UNICEF um hugmyndafræði Réttindaskóla og af vefsíðum þeirra tveggja um áherslur skólanna. Fram kom að skólarnir nutu mikilvægs stuðnings UNICEF við innleiðingu Réttindaskólaverkefnisins. Samhliða hafi verkefnið verið þróað og aðlagað að ferlum sem fyrir voru í skólunum. Viðmælendum þótti vel hafa tekist til við að auka þekkingu og skilning nemenda á réttindum sínum og ábyrgð og verkefnið hafa stutt við áherslur núgildandi grunnskólalaga og aðalnámskrár. Tækifæri til þátttöku nemenda í skólastarfi hafi aukist, til dæmis með setu í réttindaráði og nemendafulltrúar lært að sækja lýðræðislegt umboð til annarra nemenda. Í hnotskurn má segja að Réttindaskólaverkefnið sé að mati viðmælenda gott veganesti fyrir nemendur í samtíð og framtíð. Það hafi stuðlað að framförum í skólastarfi með bættum skólabrag, samskiptum og aukinni samábyrgð. Það hafi einnig stutt við lýðræðislega starfshætti og tækifæri til að vinna með mannréttindi og aðrar grunnstoðir í skólasamfélaginu.

Efnisorð


mannréttindi; menntastefna; Réttindaskóli UNICEF; lýðræðisleg nálgun í skólastarfi

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.73

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir