Viðhorf leikskólastarfsmanna til málörvunar barna sem hafa íslensku sem annað mál

Sigríður Ólafsdóttir, Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Jóhanna Runólfsdóttir

Útdráttur


Niðurstöður íslenskra rannsókna benda til að leikskólabörn með annað heimamál en íslensku, ísl2 börn, nái almennt ekki góðum tökum á íslensku þrátt fyrir langan dvalartíma í leikskólum. Því er mikilvægt að kanna hvert viðhorf leikskólastarfsmanna er til þess hlutverks þeirra að gefa ísl2 börnum tækifæri til að læra íslensku með fjölbreytilegum leiðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þekkingu, reynslu og faglegt sjálfstraust leikskólastarfsmanna til málörvunar ísl2 barna. Spurningalisti var sendur til 160 leikskólastarfsmanna í Sveitarfélaginu Árborg og var svarhlutfall 44%. Niðurstöður sýndu að ófaglært starfsfólk taldi sig verja meiri tíma með ísl2 börnum en leikskólakennarar. Þátttakendur töldu öll að samræður, söngur og lestur væru mikilvægir þættir málörvunar, ásamt vinnu með orðaforða. Tæplega helmingur svarenda fullyrti að mikilvægt væri að starfsfólk hefði færni til að veita börnunum markvissa málörvun í heimamálum þeirra. Rúmlega helmingur hafði gott faglegt sjálfstraust en fimmtungur taldi sig ekki hafa næga þekkingu til að sinna málörvun ísl2 barna. Meira en helmingur svarenda taldi sig vel geta stutt börnin við að efla íslenskufærni sína eins og þau helst vildu, en aðeins fimmtungur háskólamenntaðra leikskólakennara. Hindranir voru of mörg börn og of fáir starfsmenn, of lítill tími og skortur á faglegum stuðningi. Næstum helmingur svarenda með leikskólakennaramenntun á háskólastigi taldi sig ekki hafa fengið nægan undirbúning í leikskólakennaranáminu til að veita ísl2 börnum málörvun. Niðurstöður benda til að bæta þurfi fræðslu til starfsfólks leikskóla um mikilvæga þætti sem skipta sköpum í starfsháttum með ísl2 börnum, og því séu jafnframt skapaðar aðstæður og faglegur stuðningur til að mæta þörfum þessa barnahóps. Hætta er á að tilfinning um að geta ekki sinnt málörvun ísl2 barna nægilega vel hafi neikvæð áhrif á starfshætti með börnunum. Málfærni barna eykst í gagnvirkum mállegum samskiptum við starfsfólk og jafnaldra og við virka þátttöku í innihaldsríku leikskólastarfi. Góð íslenskufærni er síðan undirstaða farsællar námsframvindu í íslenskum skólum.

Efnisorð


fjöltyngd börn; leikskóli; málörvun; íslenska sem annað mál

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2022.4

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir