Framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi: Viðhorf skólafólks og tillögur um aðgerðir

Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Birna María Svanbjörnsdóttir, Rúnar Sigþórsson

Útdráttur


Menntun fyrir alla er einn af meginþáttum þeirrar stefnu sem íslenskt skólakerfi er byggt á. Í úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir (hér eftir Evrópumiðstöðin) á framkvæmd stefnunnar, sem var birt 2017, kom fram að þrátt fyrir að stefnan væri skýr hefði skólasamfélagið hvorki skýra mynd af hugtakinu menntun án aðgreiningar né fullnægjandi skilning á hvað skólastarf á þeim grundvelli fæli í sér. Markmið greinarinnar er tvíþætt: Í fyrsta lagi að draga saman niðurstöður 23 funda sem haldnir voru um allt land á vegum stýrihóps Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun fyrir alla haustið 2018 með það fyrir augum að skapa umræðu um stefnuna. Til fundanna voru boðaðir fulltrúar leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, frístundaþjónustu, foreldrafélaga, skólaskrifstofa, félags- og skólaþjónustu auk heilsugæslu. Niðurstöðurnar eru byggðar á greiningu á umræðuverkefni sem lagt var fyrir á hverjum fundi þar sem þátttakendur komu sér saman um mikilvægustu breytingar sem gera þyrfti, og forgangsröðun þeirra, til að styrkja menntun fyrir alla í íslenska skólakerfinu. Í öðru lagi er markmið greinarinnar að leggja fram tillögur greinarhöfunda um aðgerðir til að efla menntun fyrir alla í íslenskum skólum. Þær eru byggðar á niðurstöðum umræðuverkefnisins ásamt niðurstöðum úttektarskýrslu Evrópumiðstöðvarinnar frá 2017. Þær eru settar í samhengi við fræðilegan bakgrunn menntunar fyrir alla og enn fremur líkan af vistkerfi menntunar með það fyrir augum að greina á hvaða stjórnsýslustigum menntakerfisins ábyrgð á framkvæmd hvers þáttar liggur.

Efnisorð


menntastefna; menntakerfi; menntun fyrir alla; skóli án aðgreiningar; lærdómssamfélag; framkvæmd stefnu

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2021.7

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir