„Mér finnst námskeiðið klárlega hafa stutt mig [í kennslunni]“ Tengsl fræða og starfs á vettvangi

Lilja M. Jónsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Edda Kristín Hauksdóttir

Útdráttur


Skólaárið 2019-2020 var í fyrsta sinn í boði að taka heilsársvettvangsnám sem launað starfsnám í grunnskólakennaranámi við Menntavísindasvið HÍ. Starf á vettvangi er hluti af heilsársnámskeiði, Nám og kennsla – Fagmennska í starfi I og II. Þetta námskeið er arftaki tveggja námskeiða á meistarastigi; Nám og kennsla – Fagmennska í starfi og Faggreinakennsla. Í greininni er skoðað hvaða breytingar hafa orðið á þessum námskeiðum og hvernig þau hafa stutt kennaranemana í kennslunni, því mikilvægt er fyrir kennaramenntakennara að greina áhrif slíkra breytinga. Megináhersla námskeiðanna er að tengja saman fræði og starf á vettvangi. Þar er fjallað fræðilega um fjölmarga þætti kennarastarfsins og skoða kennaranemar þessa sömu þætti á vettvangi, prófa í kennslu og ræða við æfingakennara sína, ásamt að skrifa um þá í rannsóknardagbók. Sagt er frá aðdraganda, markmiðum, skipulagi og helstu grunnhugmyndum sem byggt var á við þróun námskeiðsins frá 2013 og greint frá niðurstöðum rannsóknar á reynslu kennaranema af heilsársnámskeiðinu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig inntak námskeiðsins og skipulag nýtist og styður nemana í kennarastarfinu og hvort þeir teldu sig almennt vel undirbúna fyrir það. Tekin voru viðtöl við átta kennaranema í janúar og febrúar 2020 og stuðst við ýmis skrifleg gögn kennara námskeiðsins. Niðurstöður viðtalanna benda til almennrar ánægju með námskeiðið. Nemarnir telja að viðfangsefni þess styðji þá í starfi og að umræðutímar í smærri hópum um námsþætti og eigin kennslu séu sérlega gagnlegir. Þá segja þeir að regluleg, markviss ígrundun um kennsluna efli þá í starfsþróun og mótun eigin starfskenningar. Fram kemur að skipulag og námsþættir námskeiðsins styðji við uppbyggingu lærdómssamfélags, bæði í kennaramenntuninni sjálfri og úti á vettvangi. Í ljós hefur komið að skipulag námskeiðsins er flókið ferli sem krefst samhæfingar margra ólíkra aðila og hafa margs konar hindranir orðið þetta fyrsta ár. Mikilvægt er að læra af reynslunni og nýta hana til að þróa kennaramenntunina til gagns fyrir alla sem að henni koma; kennaranema, vettvangsskóla og kennaramenntunarstofnunina.

Efnisorð


Kennaramenntun; kandídatsár/starfsnámsár; vettvangsnám; æfingakennari/leiðsagnarkennari

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2021.6

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir