„Þetta er í fyrsta skipti sem ég, sem útlendingur, hef svo sterk tengsl við hið opinbera“: Raddir foreldra um að íslenskir skólar héldust opnir á tímum COVID-19
Útdráttur
Við lögðum netkönnun fyrir íslenska og alþjóðlega foreldra sem var opin frá 10. maí til 8. júní 2020. Bæði eigindlegum og megindlegum upplýsingum var safnað um aðgengi að fréttum um COVID-19, upplifun á skólastarfi, skilning foreldra á viðbrögðum við heimsfaraldrinum hérlendis, ásamt lýðfræðilegum upplýsingum. Flestir þátttakendur voru háskólamenntaðar konur. Um helmingur þátttakenda voru innfæddir Íslendingar og helmingur var af erlendum uppruna. Foreldrar gátu svarað fyrir hvert barna sinna á leikskólaaldri (38%) og grunnskólaaldri (62%). Af börnum þeirra 356 foreldra sem luku könnuninni voru 172 börn (30%) heima áður en kom að breyttu fyrirkomulagi skólahalds, 16. mars, 291 barn (51%) var heima fyrir páskafrí og 199 börn (35%) voru heima eftir páskafrí. Þegar skólahald hófst aftur með eðlilegum hætti, 4. maí, voru aðeins 49 börn (9%) heima.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að flestir af íslensku og margir af alþjóðlegu foreldrunum báru mikið traust til stjórnvalda og hvernig þau tókust á við faraldurinn. Flestir foreldrar leyfðu börnum sínum að halda áfram í skólanum, einkum vegna þess að þeir treystu ákvörðunum yfirvalda. Aðrar ástæður voru m.a. heilsufarslegar, skuldbindingar vegna vinnu og litlar áhyggjur af veirunni. Foreldrarnir sem héldu börnum sínum heima nefndu einnig heilsufarslegar ástæður og skuldbindingar vegna vinnu. Þar að auki nefndu foreldrar einnig ótta og skort á stuðningsneti. Hins vegar var umhyggja fyrir hag annarra algengasta ástæða þess að foreldrar héldu börnum sínum heima. Á meðan bæði íslenskir og alþjóðlegir foreldrar nefndu það að hjálpa skólum og kennurum, voru það eingöngu alþjóðlegir foreldrar sem túlkuðu ákvörðun sína sem svo að þeir væru að leggja sitt af mörkum til að hjálpa samfélaginu í heild sinni. Við teljum að íslenskir foreldrar hafi djúp tengjandi tengsl í tengslaneti fjölskyldu og vina ásamt félagsauði til að vernda þessi tengsl. Íslenskir foreldrar hafa einnig sterk tengsl við félagshætti landsins. Foreldrar af erlendum uppruna byggja félagsauð í gegnum brúandi tengsl. Þeirra hagur er að vernda víðtækara tengslanet (Ryan o.fl., 2008) vegna þess að mögulega upplifa þeir sig ekki sem hluta af þéttriðnu tengslaneti innfæddra.
Rannsókn okkar sýnir að þrátt fyrir áhyggjur af að útsetja börn sín frekar fyrir smiti, ákváðu flestir foreldrar að fylgja ráðleggingum yfirvalda um að halda börnunum í skóla sem síðan auðveldaði skjótari viðbrögð. Þessi stefna var ólík stefnu ýmissa annarra landa og efuðust því sumir foreldrar um hana, sérstaklega þeir sem höfðu veik tengsl við samfélagið. Frekar en að beita ströngum reglugerðum varðandi félagslega hegðun fólks, var stefna íslenskra stjórnvalda að hvetja til viðeigandi breytinga á félagslegri hegðun með eins litlum truflunum á félagsháttum og kostur var. Í því fólst að leyfa börnum að halda áfram reglubundinni skólagöngu, alla vega að hluta til.
Félagsleg tengslanet foreldra eru samsett af tengjandi og brúandi tengslum sem skarast. Eins og fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um, gagnast tengjandi tengsl við að tryggja félagslegan stuðning og brúandi tengsl gagnast þegar kemur að samræmdum sameiginlegum aðgerðum. Sterkur samfélagslegur þrýstingur til að fylgja félagsháttum og félagslegri hegðun leiddi af sér farsæl viðbrögð við fyrstu bylgjunni á Íslandi.
Efnisorð
Heildartexti:
PDFDOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.18
Baktilvísanir
- Engar baktilvísanir