Skipulagið er komið út í bílskúr: Fjölskyldulíf, heimanám og COVID-19

Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir

Útdráttur


Markmið þessarar rannsóknar var að greina kynjaðar hugmyndir þátttakenda um uppeldishlutverk foreldra sem birtast í sögum um heimanám barna á tímum COVID-19. Gögnum var safnað með sögulokaaðferð í apríl 2020, en þá hafði neyðarstigi verið lýst yfir á Íslandi. Þátttakendur fengu upphaf að sögu sem þeir áttu að ljúka. Þar var söguhetjan ýmist móðir eða faðir sem þurfti að sinna heimanámi með börnum sínum í samkomubanni. Auglýst var eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum. Meirihluti þeirra sem tóku þátt voru menntaðar millistéttarkonur og endurspeglar rannsóknin því einkum sjónarhorn þeirra. Alls voru 97 sögur greindar með ígrundaðri þemagreiningu. Fræðilega sjónarhornið var femínískt, þ.e. þemu voru sett í samhengi við ríkjandi orðræður um foreldrahlutverkið í samtímamenningu og skoðað hvernig kynjuð hlutverk afmörkuðu tækifæri og forgangsröðun sögupersóna. Í sögunum var einkum tekist á við orðræðu nýfrjálshyggjunnar um skipulagða foreldrið sem nýtir hvert tækifæri til að hámarka reynslu barnsins svo það verði skilvirkur þegn samfélagsins. Þrjú meginþemu voru greind: (1) Togstreitan um tímann. Þar kom fram að tíminn er kynjapólitísk auðlind. Verkefnamiðuð dagskrá krefst verkstjórnar og yfirlegu sem lenda oft á herðum mæðra. (2) Glíman við heimanámið: Endurmat og (ó)sigrar. Félagsleg staða, m.a. menntun og auðmagn, hefur áhrif á hversu raunhæfar forsendur foreldri hefur til að taka að sér heimanám. Kvíði og sektarkennd fylgir því að ráða ekki við námsefnið. (3) Bugaðir foreldrar rísa upp gegn óraunhæfum kröfum. Þemað lýsir andstöðu foreldra við hamingjuhandrit nýfrjálshyggjunnar þar sem gott foreldri er sér meðvitað um alla þá áhættuþætti sem hafa áhrif á velferð barnsins. Hamingjuna má finna í heimilisóreiðu og námi sem fylgir ekki dagskrá skóla heldur takti heimilisins. Niðurstöður sýna að þær aðstæður sem sköpuðust í samkomubanninu skerpa átakalínur milli heimila og samfélags og átakalínur innan heimila. Þær lýsa einnig kvíða og sektarkennd sem fylgir því að geta ekki fylgt leikreglum nýfrjálshyggjuorðræðunnar.

Efnisorð


Nýfrjálshyggja; foreldrahlutverkið; COVID-19; sögulokaaðferð

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.17

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir