Á fleygiferð upp bratta lærdómskúrfu: Reynsla háskólakennara af breytingum á kennslu og námsmati á tímum COVID-19

Guðrún Geirsdóttir, Marco Solimene, Ragna Kemp Haraldsdóttir, Thamar Melanie Heijstra

Útdráttur


Í lok febrúar 2020 lýsti ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni og landlækni, yfir óvissustigi almannavarna vegna COVID-19. Rektor Háskóla Íslands hvatti starfsfólk og nemendur til að fylgjast með upplýsingum frá Landlæknisembættinu og hlýða ráðum og fyrirmælum sem þaðan komu. Í kjölfarið var neyðarstig almannavarna virkjað á Íslandi og samkomur takmarkaðar til að vernda íbúa landsins. Um miðjan mars var háskólum lokað og fengu kennarar Háskóla Íslands það verkefni að færa alla kennslu á örskömmum tíma úr hefðbundnu staðnámi í kennslustofum yfir í fjarnám. Háskólakennarar bjuggu á þessum tímapunkti yfir mismikilli reynslu af rafrænum kennsluháttum og margir þeirra hófu hraða vegferð upp bratta lærdómskúrfu. Á meðan rannsóknir hafa beinst að upplifun og reynslu nemenda, líðan þeirra og atvinnuhorfum á tímum heimsfaraldurs, hafa fáar rannsóknir varpað ljósi á leiðir kennara á háskólastigi til að endurskoða og aðlaga eigin kennslu og samskipti við nemendur að breyttri tilveru. Þessari rannsókn er ætlað að veita innsýn í reynslu háskólakennara af skyndilegum breytingum á kennsluháttum á tímum COVID-19.

Markmið þessarar greinar er að varpa ljósi á úrræði þriggja háskólakennara sem höfðu þá sérstöðu að vera samtímis í hlutverki kennara og nemenda á þessum fordæmalausu tímum. Sem kennarar báru þeir ábyrgð á að mæta farsællega þeim áskorunum sem óhjákvæmilega fylgdu heimsfaraldrinum fyrir nemendur, og vörðuðu námsmat, endurgjöf og prófafyrirkomulag. Sem nemendur stunduðu kennararnir nám í háskólakennslufræði og upplifðu því á eigin skinni hvernig námsfyrirkomulag færðist milli stað- og fjarnáms með litlum fyrirvara. Í greininni er lögð áhersla á þá þætti sem snúa að rafrænum kennsluháttum, námsmati, samskiptum kennara og nemenda og lærdómi kennara af ofangreindum þáttum.

Rannsóknargögn samanstanda af ígrundun kennarana á eigin úrræðum í kennslu sem unnin var í námskeiðinu Námsmat og endurgjöf á vormisseri 2020, reynslu þeirra af að fylgjast með kennslu hver hjá öðrum, kennslumati námskeiða, samskiptum við nemendur sem og tilkynningum og fyrirmælum háskólarektors til starfsfólks og nemenda á tímum COVID-19. Aðferðir þriggja kennara í þessari rannsókn fólust ekki síst í að vera gagnrýninn vinur (e. critical friend) í samstarfshópi (e. significant network) en það er aðferð sem felur í sér að rýna saman kennsluhætti til gagns, skapa aðstæður fyrir traust og opin samskipti og veita stuðning í þeim áskorunum sem felast í kennslu.

Niðurstöður benda til þess að á meðan markmið stjórnvalda hafi verið að „fletja út kúrfuna“ til að hefta og hægja á útbreiðslu COVID-19, hafi markmið háskólans um að tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks og að nemendur gætu lokið námskeiðum með farsælum hætti orðið til þess að lærdómskúrfa háskólakennara varð brött. Þó kennararnir þrír kenni innan sama fræðasviðs voru kennsluhættir þeirra og skipulag námskeiða með ólíkum hætti. Breytingar á kennsluháttum, svo sem aukin og persónulegri samskipti við nemendur, tæknilegar áskoranir og endurskoðun námsmats, einkenndu þessa nýju kennsluhætti og juku vinnuálag kennara. Þannig fólst lærdómur kennara í að tileinka sér notkun ýmiss konar hugbúnaðar til að mæta kröfum um rafræna kennsluhætti. Þeir þurftu jafnframt að endurskipuleggja námskeið sín sem og námsmat. Kennarar stóðu einnig frammi fyrir að sinna mörgum og ólíkum hlutverkum samtímis, m.a. á sviði stjórnunar og kennslufræði, auk þess að fela í sér bæði félagslegan og tæknilegan stuðning við nemendur. Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja fyrri rannsóknir hvað varðar þær áskoranir sem felast í að skipta stöðugt um hlutverk. Slík umskipti geta reynst kennurum erfið, ekki síst ef ekki hefur gefist tækifæri til þjálfunar áður en beita á nýjum aðferðum. Breytingar á kennsluháttum fólu einnig í sér jákvæðar hliðar, svo sem nýja reynslu kennara af upplýsingatækni, aukið jafnræði milli staðnema og fjarnema svo og nemendamiðaðri sýn kennara í kennslu. Niðurstöður benda einnig til þess að þátttaka kennara í háskólakennslufræði, áhersla námsins á ígrunduð vinnubrögð sem og náin samvinna og gagnkvæmur stuðningur á milli kennaranna þriggja sem og milli þeirra og leiðbeinanda námskeiðsins Námsmat og endurgjöf hafi orðið til þess að átökin við bratta lærdómskúrfu urðu viðráðanleg og hægt var í sameiningu að draga lærdóm af reynslunni.


Efnisorð


COVID-19; starfsþróun; samskipti kennara og nemenda; rafrænir kennsluhættir; gagnrýninn vinur

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.24

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir