Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, Sólveig Jakobsdóttir

Útdráttur


Þegar loka þurfti framhaldsskólum á Íslandi vegna heimsfaraldursins COVID-19 á vorönn 2020 var tekin upp fjarkennsla á netinu. Hér er kynnt rannsókn sem snerist um hvernig skólar og kennarar tókust á við það verkefni og hvaða lærdóm mætti draga af því til framtíðar. Kennarar og skólastjórnendur (N=827) svöruðu spurningakönnun um hvernig skólarnir voru í stakk búnir að takast á við fjarnám, hvaða breytingar urðu á notkun stafrænnar tækni, hvernig háttað var kennslufræðilegum og tæknilegum stuðningi við kennara við þessar breyttu aðstæður og hvernig reynslan af fjarkennslunni gæti haft áhrif á þróun kennsluhátta til framtíðar. Niðurstöður benda til að skólar hafi verið fremur vel í stakk búnir að takast á við aukið fjarnám, bæði hvað varðar stafræn verkfæri og aðgengi nemenda að tækni. Í um helmingi skólanna var töluverð reynsla af fjarnámi, tæpur helmingur kennara hafði reynslu af fjarkennslu og taldi þá reynslu hafa gagnast vel. Svör kennara við opnum spurningum (N=659) leiddu í ljós að helstu áskoranir voru að halda sambandi við nemendur og passa að þeir gæfust ekki upp. Álag á kennara jókst þegar þeir þurftu að sinna kennslu frá heimili sínu þar sem vinnuaðstæður voru oft krefjandi. Nefnt var að erfitt hefði verið að beita fjölbreyttum kennsluháttum í fjarkennslunni og að tilhneiging hefði verið til að kennslan færðist í hefðbundið form þar sem kennari væri í hlutverki miðlara en nemendur óvirkir hlustendur. Reynslan af kennslu á netinu opnaði augu kennara fyrir tækifærum til að koma betur til móts við þarfir einstakra nemenda með nýtingu tækni. Sumir töldu líklegt að skólar myndu í auknum mæli bjóða upp á blandað nám, þ.e. nýta bæði fjarnám og staðnám sem gæti orðið til þess að auka sveigjanleika í skólastarfi. Til þess að stuðla að þróun náms og kennslu í framtíðinni er brýnt verkefni að efla tæknifærni kennara í tengslum við þekkingu í kennslufræði.

Efnisorð


COVID-19; fjarnám; kennslufræði; tækniþekking kennara; stafræn tækni; framhaldsskólar

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.26

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir