Ég mundi bjóða henni að leika með mér“ Starfendarannsókn í leikskóla

Patricia Segura Valdes, Jórunn Elídóttir

Útdráttur


Þessi grein segir frá starfendarannsókn sem var hluti af meistaraverkefni við Háskólann á Akureyri. Rannsóknin hafði það að markmiði að auka hæfni mína til að kenna ungum börnum lýðræðisleg gildi. Ég leitaðist við að finna heppilegar kennsluaðferðir og fór rannsóknin fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknin var unnin með hópi 5–6 ára barna, níu kennurum auk rannsakandans. Kennsluaðferðir þróuðust á meðan á rannsókninni stóð m.a. með því að rýna í eigin aðferðir auk þess sem kennarar og börn mátu gæði kennslustundarinnar hverju sinni. Einnig var markvisst unnið að því að auka sjálfsmynd barnanna og ræða við börnin um lýðræðisleg gildi í daglegu starfi.

Í rannsókninni var áhersla lögð á aðferðir sem voru börnunum kunnugar, þ.e. hugmyndir og efni úr sérkennslu voru nýttar sem og leikur, bæði frjáls og skipulagður. Börnin teiknuðu einnig myndir til að deila eigin skoðunum og upplifun er sneri að gildum eins og virðingu, vináttu og fjölskyldu. Starfendarannsóknin var virkt og skapandi ferli; hver kennslustund var ígrunduð daglega að henni lokinni, til að meta hvort hún skilaði árangri eða ekki, og einnig hvernig bæta mætti áherslur og vinnulag daginn eftir. Ég skráði ferlið og þær breytingar sem áttu sér stað í hverri viku og flokkaði jafnframt eftir þemum. Viðmiðin sem fylgt var voru að börnin og kennararnir deildu eigin skoðunum í gegnum samræður; að þróun væri í kennslustundunum; að börn yrðu opnari við að deila og tjá mat sitt á atburðum og þeim sögum eða textum sem voru nýtt í kennslunni. Börnin voru þátttakendur í því ferli að þróa og meta hvernig til tókst og hvað betur mátti fara. Samtöl við þau og þátttaka þeirra voru hreyfiafl rannsóknarinnar.

Niðurstöðurnar gefa jákvæðar vísbendingar um að hæfni mín til kennslu á þessum gildum hafi orðið betri og markvissari með því að nota lýðræðisleg vinnubrögð, klípusögur, gleði og hvatningu í skólastofunni. Sýndu börnin án vafa framfarir í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Rannsóknin sýnir fram á að mikilvægt er að jafnvægi sé í valdatengslum milli kennara og barna svo börnin upplifi sjálfræði sitt. Einnig að gott er að útskýra smátt og smátt lýðræðisleg gildi með því að tengja þau við klípusögur og daglegt starf leikskólabarna þannig að börnin viti út á hvað lýðræði gengur og til hvers er ætlast af þeim. Tilvalið er að þjálfa lýðræðisleg vinnubrögð í barnahópnum í frjálsum leik og sköpun. Þegar börnin upplifa virðingu frá öðrum, eru þau líklegri til að svara í sömu mynt. Börnin eiga að upplifa þátttökurétt svo að þau geri sér grein fyrir eigin getu og þrói með sér hæfileika til að stýra hugmyndum sínum á lýðræðislegan hátt. Þegar börnin skynja velvild og virðingu frá kennaranum eru þau líklegri til að svara í sömu mynt. Út frá sjónarmiðum barnanna í rannsókninni er kennari sá sem sýnir virðingu, einhver sem er góður, talar fallega til barnanna og leikur sér fallega með þeim.

Greinin segir frá hluta rannsóknarinnar, sem sýnir ávinning af því að innleiða lýðræðisleg gildi í starfi með börnum í ljósi kenningar Johns Dewey. Börnin settu fram hugmyndir um gildi og merkingu þeirra í samfélaginu. Þau lýstu einnig yfir áhuga á að vera þátttakendur í málefnum þeirra, sem eru þeim kær. Jafnframt varpar greinin ljósi á hvernig starfendarannsóknin eykur meðvitund mína um nám og kennslu barnanna er snýr að því að kenna gildi og efla þátttöku þeirra á lýðræðislegan hátt. Leikskólinn hefur haldið áfram að vinna með áherslur sem vekja börn til vitundar um lýðræðisleg gildi og haldnir eru fundir þar sem elstu börnin koma reglulega saman til að ræða málefni sem varða hagsmuni þeirra.

Efnisorð


lýðræði; virðing; umhyggja; þátttaka; starfendarannsókn

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2020.9

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir